já ég er rauð - eeld rauð eftir helgina. Hélt ég væri brunnin en ég er ekkert aum eða sár - bara rauð :o)
Helgin var bara snilld. Fórum uppeftir á föstudag eftir vinnu, og Gabríel var sönglandi happy þar sem hjólið hans var með í för. Svo er bara svo notalegt að fara uppí sveit, stússast í fjárhúsinu, fara í lónið og njóta þess að vera til. Við mæðgin meira að segja sváfum bæði laugardagseftirmiddagslúr, og mikið svakalega er það gott að nappa aðeins. Skella sér svo í lónið og fylgjast með litla orkuboltanum mínum buslast og skvettast um allt. Þetta er sko staður fyrir hann.
Fórum út að ganga með Herkúles gamla. Hann smitaðist af leiknum í Gabríel (sem stoppaði hvað eftir annað á hjólinu til að gefa öndunum brauð) og sá gamli fann spýtu og fór að leika sér. Má geta þess að sá gamli er 13 ára gamall! Gabríel á það til að lána honum sængina sína, klappar honum afar varlega því hann er orðinn svo gamall. En Herkúles er afar góður við hann, finnst hann oft á tíðum heldur hávaðasamur.
Maður horfði á júró með öðru. Kom mér á óvart hve hátt þau komust en það var gaman að sjá þau komast áfram :) Missti alveg af atriðinu þeirra í forkeppninni þar sem ég var í keilu og út að borða með vinnunni.
Sunnudagur fór í að njóta þess að vera til. Njóta þess að vera með sínum nánustu, plana og plotta afmæli, knúsa barnið mitt, sleikja sólina, kíkja í lónið fá sér ís og lesa. Kíktum á lömbin og Gabríel alveg með stjörnur í augum - fannst þau svo falleg. Og hann má eiga það blessaður að hann er ekkert að hamast í þeim, vilja halda, fikta eða neitt þannig. Bara horfði með lotningu og strauk litla lambinu um kollinn.
Í dag er sól og sumar. Fór í sund í morgun, synti minn hálfa km og var snögg að. Svo hrikalega notalegt að svamla á morgnana. Koma frískur og ferskur í vinnu, fá sér kaffi og takast á við daginn.
Það er ekkert í gangi hjá mér og er bara að fíla það. Dóa vinkona bendir mér á að ég sé að vanda mig við að loka á alla sem gætu þýtt eitthvað meira; aka sápustykki... Hmm - gæti hún verið að rata á rétt þar? Ég er bara svo sátt við allt eins og er í dag. Ég hreinlega nenni ekki að fara að blanda saman heimili mínu við annað strax. Allt of flókið.
þar til næst - njótið tilverunnar og sólarinnar :o)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli