Átti alveg yndislega helgi með syni mínum. Vorum bara heima. Enda á föstudagskvöldið var hrikalega vont veður. Snjókoma á hlið á mikilli ferð. Mér fannst þetta ekkert sniðugt og var heldur fegin að hafa ákveðið að vera bara heima og þurfa ekkert að þvælast út í þetta.
Fórum að sjá Múmínálfana á laugardaginn. Hann skemmti sér vel, var samt farinn að iða í sætinu þar sem einhverra hluta vegna er ekki hlé á þessum sérstöku barnamyndum eins og td Múmínálfunum, Skoppu og Skrítlu, Bubba Byggir, svo eitthvað sé nefnt. Og hann hreinlega getur ekki setið kjurr og notið myndarinnar í 70 mínútur. Á venjulegri bíómynd (td Disney) þá er hlé miklu fyrr og hann fær að hlaupa um og fá útrás. Greifapizza á eftir :o)
Fórum í jólahúsið í gær. Stoppuðum ekki lengi. Hann fékk að velja sér “óvissupakka”. Seldir eru jólapakkar innpakkaðir svo enginn veit hvað er í þeim. Hann valdi sér pakka og var rosalega spenntur. En kátínan hvarf þegar hann opnaði og hann fór að grenja alveg ógurlega. Hann fékk rosalega fallega jólakönnu. Hann vildi fá dót og svo hélt hann áfram að gráta. “mamma ég elska ekki svona – ég elska dót..” En hann sættist við hana þegar hann fattaði að hann gat borðað ísinn sinn úr henni fyrir utan Brynju.
kíktum í kaffi til Freydísar vinkonu. Hann og Júlíus fóru út á trambólínið. Þar hoppuðu þeir í nærri klukkutíma félagarnir. Gaman að sjá að þeir eru að ná saman. Enda sofnaði minn klukkan fimm þegar hann slakaði aðeins á eftir að við komum heim. Eldaði handa honum slátur og hann var sofnaður aftur klukkan átta :o)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli