ég er í yndislegum ljósmyndahóp sem kallast ÁLFkonur eða ÁhugaLjósmyndaraFélag fyrir konur og erum við núna lokaður hópur kvenna á Eyjafjarðarsvæðinu.
Þessar konur eru yndislegar og hafa kennt mér allt sem ég kann. Þær eru wikipedia ljósmyndunar, óþrjótandi viskubrunnur og allar svo tilbúnar til að hjálpa og leiðbeina.
Þessar stundir eru ómetanlegar. Mikið hlegið og skrafað.
Núna eru þær að skipuleggja ljósmyndasýningu í Lystigarðinum hér á Akureyri. Sýningin eru myndir úr garðinum sjálfum. Sýningin er sett upp í tilefni afmælisins í sumar. Þessi sýning á eftir að vera svo flott hjá þeim - ég hlakka svo til að sjá hana !
Ég er hreinlega ekki tilbúin til að taka þátt í sýningu, ég er svo nýbyrjuð.
Ég á þessa einu mynd úr Lystigarðinum sem ég tel vera þess verð að sýna opinberlega, en bara hér og á flikkrinu.
Ég vona að ég verði einhverntímann það góður ljósmyndari að ég geti stolt sýnt myndirnar mínar, verið ófeimin við að sýna þær opinberlega á sýningum, hætta með þessa fáránlegu minnimáttarkennd þegar kemur að þeim.
Kannski erfitt þegar maður er í svona sprengreyndum hóp, en ég kýs að horfa ekki á það þannig. Frekar að njóta þess að vera með svona miklum reynsluboltum, læra af þeim. Held að aðalatriðið sé ekki að hætta, ekki gefast upp.
Mér finnst þetta bara svo gaman !
Engin ummæli:
Skrifa ummæli