þriðjudagur, desember 14, 2004

Allt gott að frétta

ég er búin að vera hérna í Mývó síðan við komum hingað að passa hund og hús. Við ákváðum að best væri að ég færi ekkert að brasa við að keyra austur til að vera þar í viku og koma svo aftur norður. Ekki það að ég hafi ekki viljað fara aðeins heim, er með smá vott af heimþrá, en það er búið að fara afskaplega vel um mig hérna og junior. Já í sónar kom í ljós að þetta er myndar strákur sem ég ber undir belti! Og okkur líður bara afskaplega vel.
Hjölli fór hinsvegar austur sl þriðjudag til að ganga frá húsinu almennilega og ná í það sem okkur vantaði fyrir jól og barnsburð. Hans er von aftur í dag. Þá liggur leiðin til A-eyrar þar sem við verðum fram yfir fæðingu. Hvar jólin verða haldin er ekki alveg komið á hreint, en ef færð og veður leyfa þá vil ég helst vera hjá mömmu.

föstudagur, desember 03, 2004

Lítill strákur

Jamm við fórum til Akureyrar í gær til að skoða bumbubúa í sónar. Og það lítur allt vel út, og þetta er strákur!! Svo Hjölli hafði rétt fyrir sér blessaður. Svo núna er bara að grisja úr fötunum frá Þórhöllu systur og sleppa öllum bleikum fatnaði, og gleyma að hugsa um stelpu nöfn. Ég á líka að fara að slappa af, hætta öllu veseni (þrífa, príla upp á borð og standa á stólum við að koma upp jólaseríum svo eitthvað sé nefnt) hvernig sem það kemur til með að ganga hjá mér. Þeir breyttu ekkert dagsetningunni hjá okkur, hún er enn 29 desember, en gutti er kominn í skotstöðu.
Annars er lífið í Mývó hið rólegasta. Mamma og pabbi fóru í fyrradag, koma aftur á mánudaginn. Herkúles voða aumur fyrst, en við dekrum hann svo mikið að hann er farinn að brosa á ný. Kítara er líka obbosslega góð við hann - sko núna er hún að passa hann!!
Við förum semst aftur á Fáskrúðsfjörð á mánudag/þriðjudag. En við færum okkur um set til A-eyrar (til að bíða eftir gutta) 14 desember. Og þá verðum við alveg þar til bumbulíus ákveður að koma í heiminn.
En þar til næst - hafið það sem allra allra best - tölvupóstur er vel þeginn - allaveganna póstur - svo endilega ekki vera feimin!!!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Róleg helgi

sem kemur kannski ekkert á óvart. Svaf mikið í lazy boy, horfði á fullt af myndum og þáttum - sem ég hef fengið "að láni". Fórum til Stöðvarfjarðar á laugardaginn - tilgangur að kíkja á jólabasar. Það var frekar fátæklegt á að líta, og við snillingarnir sem erum enn með höfuðborgarþjónustu í huga greinilega - héldum að það væri nú örugglega hraðbanki á Stöðvarfirði, en neibb, ekkert svoleiðis. Það hefði nú átt að glóa aðeins meira á perunni minni þar sem Fáskrúðsfirðingar fengu ekki fyrst hraðbanka nema snemma á þessu ári... En það er þó ekki búið að taka af okkur búðina eða sjoppuna!! Það var hvergi hægt að versla svo maður gæti fengið til baka af debeti! (þeir eru þó með bensín sjálfsala - en maður unir þeim það þar sem þeir eru ekki með neina aðra þjónustu)
En nú er ný vika tekin við og fyrsti sunnudagur í aðventu var í gær. Bærinn ljómaði upp í gær, og ætla ég að setja seríur í gluggana hjá mér í dag. Þá get ég notið þeirra aðeins áður en við förum á morgun í Mývó.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Smutti !!!!

Smutti minn - ég er ekki með e-mail hjá þér sem virkar ertu til í að senda mér meil!!!

Viðburðarlausir letidagar

Hæ hæ - ég hef lítið annað gert undanfarna daga eftir að ég kláraði prófin en að liggja með kúluna upp í loftið í lazy-boy.
Það er búið að snjóa, hlýna, rigna og ekkert afgerandi göngufæri fyrir óléttar konur. Reyndar náði ég mér í brodda undir skóna í gær, og gat aðeins labbað í morgun, en annars hef ég bara stoppað bílinn, staðið í sömu sporum og kastað frisbí.
Mæðraskoðunin í gær gekk vel og allt í gúddi á þeim endanum. Þegar átti að hlusta á hjartsláttinn þá voru sumir greinilega fúlir yfir að hafa verið vaktir af værum blundi með öllu potinu, því um leið og hún fann hjartsláttinn þá snéri bumbulíus sér undan, og hún þurfti að elta hann með hlustunartækinu. Hmm hvort skapgerðareinkennin komi fram svona snemma hef ég ekki hugmynd um.... En það er allavega líf og fjör þarna í góðu yfirlæti (miðað við hvað þetta stækkar þessa dagana).
Það er föstudagur í dag. Og ég er farin að stressa mig á hlutum sem við eigum eftri að gera áður en við förum til A-eyrar. En í næstu viku verður það Mývó til 6. des og svo er áætlað að færast um set (tímabundið fram yfir fæðingu/áramót) til A-eyrar. Og ég er að stressa mig á þvottahúsið er ekki tilbúið, og mér finnst svo margt sem þarf að gera, en svo er það bara þvottahúsið sem er ekki tilbúið. Ég held að þetta stress í mér stafi líka af því að ég get ekkert gert sjálf og finnst það óþægilegt. Svo ég mikla þetta soldið fyrir mér. Ef ég fengi einhverju ráðið þá væri ég þessa dagana með kústa og sópa um allt hús að þrífa breyta og bæta. Skil þetta ekki!! Er alls ekki svona vanalega - gæti verið vegna þess að ég má ekki gera þetta núna.
En allaveganna - þá er líðanin góð, er í góðu yfirlæti sjálf, hef sko ekki undan neinu að kvarta, liggur við að ég sé borin um á bómull.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Vetrarríki

Þegar ég loks komst á fætur í morgun og tíkinni til mikillar gleði náði að haska mér í útifötin og út þá blasti við mér stórkostleg sjón. Nýfallinn snjór, alls staðar. Bíllinn minn var algjörlega hulinn hvítri þykkri slæðu. Trén voru eins og á jólakorti. Svo stillt og kyrrt. Þetta var með fallegri sjónum sem maður sér um ævinna. Við nutum okkar í snjónum í labbónum okkar. Tókum ekki frisbí með heldur kastaði ég snjókúlum fyrir hana, hennar besta skemmtun, sérstaklega þegar hún þarf að hoppa í skafla og þegar hún sekkur ofan í þá. Og aftur skaut þeirri hugsun í kollinn að fljótlega má ég fara að setja upp seríur og dusta rykið af jóladótinu.
Um hádegið fór ég í klippingu, en ég hef ekki farið í alvöru klippngu á stofu til fjölda ára. Alltaf bara látið snyrta enda eða klippa í heimahúsi. Svo núna er ég með hár niður undir herðablöð með styttum í. Mikil breyting frá lubbanum sem ég var komin með, og var algjörlega hætt að ráða nokkuð við. En hún tok um 15 cm af hárinu (þegar ég sá það á gólfinu fór aðeins um mig) og mér finnst ég vera með svooooo stutt hár núna. En ég er sátt við þetta - auk þess þetta vex aftur á met hraða eins og vanalega.
Annars einkenndist dagurinn af leti. Ég stóð við það sem ég hafði ákveðið að fyrsti dagur eftir að prófum lyki færi í nákvæmlega ekki neitt nema dútl og dundur, og ég náði að standa við það!

mánudagur, nóvember 22, 2004

Prófin búin !!!

Jamm þá er því lokið í bili. Gekk ágætlega í dag, svo ég kvarta ekki. Einkunnir segja svo til um gengið. En ég má búast við þeim 6. desember.
Núna ætla ég að slaka á og fara að einbeita mér að því að vera barnshafandi, og njóta þess. Mér finnst ég geta horft á kúluna stækka núna dag frá degi, og ég finn líka áhrifin sem það hefur á mig. Finn ég hef ekki sama úthaldið og venjulega, og verð að sætta mig við það, enda er ekki langt eftir.
Við Kítara fórum í góða göngu í morgun, hittum Hafdísi og Jeltsín. Kítara ekkert smá happý yfir að hitta félaga sinn loksins.
Á leiðinni heim úr prófinu ákvað ég að dekra við mig og pantaði mér tíma í klippingu á morgun. Nei ég ætla ekki að klippa stutt - heldur bara gera eitthvað til að lífga upp á það, aðeins að breyta til.
Nú er tími til að láta undan spennufallinu sem fylgir því að ljúka prófum, og ætla að slaka á það sem eftir er kvölds.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Hálf einmannalegt

að sitja hérna svona snemma á laugardagsmorgni. Enginn mættur á msn og engin meil. Búin að sitja hérna síðan um rúmlega sjö, vaknaði með liðbandaverki og sinadrátt, og var vont að liggja í bælinu lengur, svo ég ákvað að skella mér í lærdóm. Það er líka rólegt hér á heimilinu svona snemma.
Rólegt yfir öllu, meira að segja ekkert rok úti, afskaplega notalegt.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Memory lane...

Ég asnaðist til að heyra eitt jólalag. Umræður um lagið Do they know it's christmas á sök á því. Og ég fattaði að ég hlustaði afar lítið á jólalög í fyrra. Meira að segja jóla cdarnir voru ekkert spilaðir í fyrra. Og ég fór að hugsa um hvernig mér leið fyrir ári síðan. Vá maður lifandi. Dagbókin var heldur óskemmtileg lesning. En samt er ég ánægð með að hafa náð að skrifa niður líðanina og hvernig dagarnir voru. Svarsýnin, þunglyndið og einmannaleikinn allsráðandi. Og ég sá það að Kítara átti stóran hlut í að ég hélt geðheilsunni. Og hvernig í fjáranum ég fór að því að ná prófunum í þessu ástandi í fyrra er mér hulin ráðgáta.
Og þegar ég les dagbókina núna þá get ég ekki annað en hugsað um hve lífið getur breyst. Hvernig hlutirnir hafa þróast, og hvernig mér líður í dag, ári seinna. Tvær ólíkar manneskjur hérna á ferðinni. Árið 2004 hefur verið mjög viðburðarríkt, og ég hefði aldrei getað ímyndað mér fyrir ári síðan að mér ætti eftir að líða svona vel eins og mér líður í dag.
Þetta er allt mjög skrýtð.

Gleðilegan föstudag

Og til hamingju með helgina framundan! Ákvað að fá mér kaffibolla áður en ég færi út með tíkina í dag. Það er enn allt of dimmt til að fara út fyrir bæinn í gönguferð (engir ljósastaurar þar) Er búin að opna bækur og er búin að reikna eitt dæmi í binary. Er búin að skipuleggja daginn og helgina í námið:
  • föstudagur: kaflar 1 og 2 (sagan og binary)
  • Laugardagur: Kaflar 5 og 6 (skipanasett og minni)
  • sunnudagur: kafli 7 og yfirferð á köflum 3 og 4 (er búin að fara vel yfir þá núna en þeir eru erfiðastir)

Það er kalt í dag. Vona að gallinn komist yfir kúluna. Ég tók eftir því í gær að hún er farin að stækka helmingi hraðar. Og lætin eru alltaf jafn mikil. Þetta ætlar að verða mikill orkubolti!

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Fíla mig eins og aumingja

Merkilegt. Mér finnst afar erfitt að sætta mig við það að ég get ekki gert hlutina eins og áður. Ljósmóðirin bannaði mér að gera hitt og þetta og mér finnst afar erfitt að hlýða því. Mér finnst afar erfitt að mega ekki sópa/skúra/ryksuga. Mér finnst allt vera svo skítugt og má ekkert gera við því. Vil heldur ekki nöldra í Hjölla, nöldra alveg nóg nú þegar. Greip áðan sóp og sópaði stofuna og viti menn - fékk svona nett í bakið í leiðinni, og í lífbeinið, niður í læri, og semst geri ekki mikið það sem eftir er dags. (btw fyrir ykkur sem ekki vitið þá er ég með grindarlosun á byrjunarstigi) og þetta fer í skapið á mér!!! Þess vegna fíla ég mig sem aumingja!! Og trúið mér það hjálpar ekki til við hormónavitleysuna sem fer hríðversnandi eftir því sem líður lengra!

Próflestur continues

Góðan daginn gott fólk. Það þýðir víst lítið að slaka á í þessum prófundirbúningi. Fór lítið fyrir lestri í gær, var í engu stuði né ástandi til að læra eftir svefnlitla nótt.
En í dag horfir málið öðruvísi við. Búin að fara út með tíkina, skafa af bílnum, festa mig, leika mér í skaflaleik á bílnum, sturta, morgunverður og er nú komin fyrir framan tölvuna með kaffibollann við hönd, tilbúin til að takast á við verkefni dagsins.
Væri alveg sátt við að þurfa ekkert að fara út aftur í dag. Veðrið leit ok út þegar ég var að fara af stað og það er ok veður úti, nema þegar rokhrynurnar fara af stað og feykja upp öllum lausa snjó sem fallið hafði í nótt, þá sést ekki handaskil. En það er afskaplega fallegt og jóló úti, verð ég að viðurkenna.
Í gamla daga þá fékk maður alltaf jólafílíng við að klára prófin, skildi það koma upp líka núna? Eins og á vorin, þegar prófin eru búin þá á að vera komið sumar. Ég vona það, er alveg til í að fá smá jólapúst núna. Hver veit hvernig desember mánuður verður hjá okkur.....
Á þeim nótunum verð ég að segja að okkur bumbulíusi líður bara mjög vel. Bumbulíus er fullur af krafti og gengur erfiðlega að vera kyrr. Það fer greinilega ekki ílla um hann þar sem hann heldur bara áfram að stækka og stækka og ég stækka og stækka, og er komin með þokkalega kúlu beint út í loftið. Stundum læðist sú hugsun að mér "hvernig verð ég þá í desember??"
Stundum finnst mér þetta afar óraunverulegt ennþá. Og stundum fyllist ég óöryggi og kvíða. Me the baby dummy.... En næ að hrista það af mér jafn óðum. Æðislegt Þórhalla systir fékk kassana frá sínum fyrrverandi með bunch af barnafötum. Fullt fullt, af hennar börnum. Við Hjölli getum semst farið yfir þau þegar við verðum í Mývó fyrstu vikuna í des. og fengið lánað hellings og meir!
Jæja - best að vinda sér í lærdóminn - prófið fer ekki neitt!

mánudagur, nóvember 15, 2004

Læt fara vel um mig

í lazy-boy og horfi á Stargate SG-1. Ég einhvern veginn kem mér engann veginn fyrir neinstaðar annarsstaðar en í þessum ágæta stól mínum. Rúmið mitt er þægilegt og gott, en ég vakna alltaf þegar ég þarf að skipta um hlið (get ekki sofið á bakinu lengur) því það er orðið svo mikil fyrirhöfn. En í lazy-boy þá þarf ég ekki að snúa mér eða bylta. Þægilegt. Versta við að vera vakandi enn er að ég er orðin svöng aftur, er miklu oftar svangari undanfarið... hef heyrt að það fylgi víst, but correct me if I'm wrong please!
Jamm fórum til Eskifjarðar í dag. Hef ég sagt ykkur hve mikið ég hata að keyra í svona hálku og veseni. En þá er bara að aka rólega, "eins og manneskja" eins og pabbi kallar það. Já og tannsi þurfti að sauma Hjölla í þetta skiptið - vona nú að þetta fari að skána hjá honum.
Allir kennarar hérna hafa sagt upp störfum - það er semst ekki 15% eða 30% starfsmanna hér í skóla heldur 100% uppsagnir. Hvar endar þetta??
En allavega - Stargate bíður mín, ætla að láta fara vel um mig og njóta þáttarins.
Góða nótt dúllurnar mínar.

Fyrra prófi lokið...:p

Nú er ég að slaka mér niður eftir þennann áfanga. Var að koma heim úr C++ prófinu mínu. Gekk þokkalega, en svo segir bara einkunnin til um endanlega niðurstöðu. Og þar sem Tölvuhögunarprófið er á mánudag eftir viku þá ætla ég að leyfa mér að eiga frí frá lærdómi það sem eftir er dags í dag. Fann í fyrsta skipti fyrir virkilegum prófskrekk í morgun. Þegar ég mætti þá varð ég að byrja á því að einbeita mér að því að lokast ekki alveg, og það hjálpaði þegar ég sá að spurningin með hæsta vægið veittist mér auðveldust, og við að klára það opnaðist rest fyrir mér, en ég hef aldrei lent í því áður að lokast á prófi. Kenni því um að sjálfsöryggið er ekki alveg í toppi. Þakka því að hafa spreytt mig á gömlum prófum hérna heima til að æfa mig í að skrifa kóða á blað, en ekki hafa compilerinn til að finna villurnar fyrir mig(kommur, semikommur, svigar og þess háttar) En þetta gekk, ég lifði af og hugsa að það sé ekki fall í gangi hjá mér.
Hjölli fór til tansa sl mánudag, til að rífa úr 2 jaxla. Sem er kannski ekki frásögu færandi nema hvað alla vikuna hefur hann verið að drepast í munninum, og ekket að skána. Svo í dag hringdi hann í tansa og á tíma í dag á Eskifirði. Svo við rennum þangað yfir á eftir. Ég hef aldrei þurft að láta rífa úr mér tennur, svo ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta er, en ég hugsa að þetta sé verra en andskotinn. Og ég trúi því ekki að það sé normal að vera að drepast í heila viku á eftir??
Það var jólalegt í morgun þegar ég vaknaði. Ný fallinn snjór yfir öllu. Kyrrt og rólegt yfirbragð á byggðinni. Hreinlega vantaði bara jólaseríur á húsin, þá hefði þetta verið ekta jólakortamynd að líta yfir fjörðinn. Maður hreinlega komst ekki hjá því að hugsa til þess hve stutt er í að maður fari að heyra jólalög í útvarpi, dusti rykið af jóladiskunum, finni jólalögin á harða disknum, og greiði úr jólaseríunum síðan í fyrra og bæti fleirum í safnið til að skipta út fyrir þær sem eru ónýtar. Það verður sennilegast ekki mikið skreytt á þessu heimili í ár, þar sem við verðum af bæ yfir hátíðarnar. En ég ætla samt að njóta þess að setja upp seríur, kerti og dúka. Jafnvel baka smávegis, til að fá smá lykt. En við verðum ekki mikið heima í desember. Mamma og pabbi eru að fara til Dublin með Kísiliðjunni 1-6 desember og verðum við hús og hundapassarar fyrir þau í Mývó á meðan. Svo sennilegast um miðjan des færum við okkur um set til að bíða eftir stóra deginum.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

kaldhæðni...

munið þið mínir dyggu lesendur eftir færslu sem ég skrifaði um manneskju á mínum aldri sem hafði verið að baktala okkur en brosti alltaf svo afskaplega næs og var alltaf svo næs þegar maður talaði við hana? Jæja - haldiði ekki að sú sama sé að væla á sínu bloggi yfir kjaftaskjóðum og baknagi!!! Ég man hvað ég varð ofboðslega sár í sumar þegar ég heyrði hvað hún var að láta út úr sér varðandi okkur, svo kannski hlakkar aðeins í mér yfir þessu, bara vegna þess að ég vona að hún læri af reynslunni!!

laugardagur, nóvember 13, 2004

Nýji heimilismeðlimurinn

Já ég verð að taka undir með henni Sollu minni í US þá er alveg hreint yndislegt að hafa uppvaskara á heimilinu. Í kvöld voru margir í mat. Pabbi Hjölla, þrír vinir hans og vinur Hjölla; Bjössi í Brú svokallaður, og svo við Hjölli - samtals 7 manns. Ég er alltaf jafn stolt af eldhúsborðinu okkar sem er huge í stóra eldhúsinu, nóg pláss fyrir alla. Og þegar ganga átti frá þá vorum við Hjölli ekki lengi að, settumst inn í stofu og vinnuþjarkurinn vinnur sína vinnu inni í eldhúsi á meðan við slökum á. Svona á þetta að vera!!
Bjössi vinur Hjölla kom í gærkveldi til að hjálpa honum við að henda stórum þungum hlutum á haugana, sem ég get ekki/má ekki lofta. Svo var Gummi félagi hans mættur á svæðið um tíu í morgun til að hjálpa honum við að rífa út af annarri hæðinni.
Ég lagðist yfir lærdóminn, gekk vel, finnst ég vera að nálgast það að vera tilbúin í prófið á mánudaginn. Enn er dagur til góða, til að nota í glósur og yfirferð. Leggst vel í mig.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Bloggerbreytingar....

Það er greinilegt að sumir (taki það til sín sem vilja) eru alls ekki að nenna að gera það sem þeir eiga að vera að gera... Og það sést alltaf þegar allt í einu out of no where verða mega breytingar á bloggum þessa fólks... Kannast sjálf við það, og þegar maður sekkur ofan í template heiminn þá er manni varla viðreisnar von, því þetta er svo mikill tímaþjófur að það hálfa. Skrolla um netið og finna rétta templatið, laga svo og adda inn linkum, snurfussa og fínisera... þetta er dútl og föndur. Góð leið til að drepa tímann, gleyma sjálfum sér og öllu því sem gerist í kringum mann - einkumm góð leið til að gleyma öllu sem maður á að vera að gera en bara hreinlega hefur ekki andlega orku í að sinna.
Mér líður þannig núna. Ég ætla samt að reyna að sporna við freistingum til að breyta útliti bloggsins míns. En undanfarna daga er ég búin að vera að læra og læra og læra. Afar fátt annað kemst að í mínum haus. Og þegar ég vaknaði í morgun (eftir btw óþægilegan svefn því ég hreinlega kem mér ekki fyrir lengur) þá var ég enn jafn þreytt og í gær þegar ég lagðist til svefns. Í augnablikinu finnst mér að ég hreinlega komi ekki fleirum upplýsingum í hausinn á mér, ég stari á tölvuskjáinn, á forritið sem ég er að leika mér með, það kemur upp villa og ég bara stari tómu augnaráði á það.
Ég hins vegar byrjaði morguninn á að fara út með tíkina, fá mér svo morgunmat og grípa einn Charmed þátt í tölvunni (ok ok ekki commenta á entertainment efnið) hélt að þetta myndi aðeins koma heilabúinu af stað, en það hreinlega virkaði ekki.
Á maður að láta undan og sleppa lærdómi í þessu ástandi eða á maður að ignora sjálfan sig og reyna að halda áfram???

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Prófin nálgast

Það er ekki mikið í gangi hjá mér þessa dagana annað en próflestur. Mán, þri og í dag hef ég vaknað, út með hundinn svo sest yfir lærdóm. Er í þessu að fara að ráðast á gamalt próf til að spreyta mig á og athuga hvar ég stend og hvar veikleikarnir liggja. Lausn þessa prófs kemur svo inn á innra net háskólans síðar í vikunni (samkv. kennara) Hann sagði að það væri besta leiðin til að undirbúa sig undir C++ prófið. Annars hef ég verið að æfa mig í að búa til bull forrit og alls kyns rugl og fá það til að virka. Mér finnst það geggjað gaman actually.... me weird kannski, kannski ekki, dunno.
Heavy rok í gær, snjór í dag, bleyta og rigning, slapp.
Enn og aftur reyni ekki að stressast yfir þessum blessuðu prófum, en maður gerir bara sitt besta, og vonar að það sé nógu gott til að ná þeim með ágætis útkomu.
Wish me luck.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Bensínbófar





---


sunnudagur, nóvember 07, 2004

Komið í lag

Fórum í gær og náðum okkur í nýtt sjónvarp í BT. Dóluðum okkur aðeins á Egs í leiðinni, fengum okkur að borða og næs þar. Breyttum svo aðeins í stofunni til að koma stóra tækinu fyrir, keyptum 29" tæki, og sjónvarpið sjálft virkar helmingi stærra um sig en gamla 28" tækið sem við áttum. Svo auðvitað þurftum við að finna stað þar sem sjónvarpið væri öruggt á fyrir veðrum og vindum...
Skemmtilegt hvað myndin er skýr og tær í nýja sjónvarpinu. En það gamla var orðið gamalt og slitið og nota bene keypt notað og viðgert á slikk af verkstæðinu í BT fyrir mööörgum árum - þegar brotist var inn hjá okkur og öllu stolið. Ég bara lofa það gamla og blessa fyrir hve það entist vel, og ef það hefði ekki drukknað hefði það sennilegast lifað nokkur nár í viðbót!!!
Svo gómaðist músin, og reyndar voru þær tvær blessaðar. Og höfum við ekkert orðið vör við að fleiri skildu vera á vappi.
Og dagurinn í dag er búinn að vera lærdómsdagur. Svaka dugleg. Enda líka byrja prófin eftir viku, er að reyna að panica ekki um of yfir því. Forritun er fyrst og fer þessi vika í það alveg. Tölvuhögun fær að bíða þar til í vikunni á eftir, en það er vika á milli prófa. (enskan má bíða)
Svo núna ætla ég að njóta þess sem eftir er af sunnudeginum í að slaka á og hreinsa hugann frá öllu námi.
Þurfum reyndar að fara á morgun og klára pappírsvinnuútfyllingardæmi vegna fæðingarorlofsins. Er ekki alveg að fatta þetta, en það kemur í ljós. Ætlum í leiðinni að kíkja í Byko svo Hjölli geti náð í meira parkett til að leggja á eldhúsið. Svo næstu vikur verða annasamar. Hjá okkur báðum reyndar. Því nú styttist í allt, styttist í desembermánuð, og þá fer að styttast í að við færum okkur um set (tímabundið) til A-eyrar til að bíða eftir stóra deginum. Óg ég stækka og stækka bara þessa dagana.
Ég vildi helst geta bara beðið hér, heima hjá mér, þar sem mér líður best, með minn lazy-boy og mínar tölvur og mitt net, mitt sjónvarp og mína kaffikönnu og mitt rúm.
En ég bara þori ekki að eiga það á hættu að bumbulíus ákveði að nú sé tími kominn á að kíkja á umheiminn í miðjum snjóstormi, eða asahláku. Hef ekki mikinn áhuga á að fæða barnið mitt á miðjum fjallvegi í sjúkrabíl í brjáluðu veðri. Nóg stressuð fyrir fæðingunni nú þegar. (vil hafa mömmu á sama landsfjórðungi líka)
Jæja nóg komið af bulli í dag. Njótið kvöldsins dúllurnar mínar

föstudagur, nóvember 05, 2004

Segi bara eins og hinir:

"Enn og aftur föstudagur." Þetta hefur maður verið að lesa á bloggum víðsvegar um landið. Enda ekkert skrýtið. Þetta þýðir að það er vika síðan ég kom heim frá London, ok, og þá eru 2 vikur síðan ég fór út!! Áður en ég veit af þá verða prófin búin, jólin komin og ég orðin mamma!! ó mæ gaaadddd. Ég finn fyrir sams konar kvíða fyrir prófum og því að verða mamma - ætli þetta séu sömu efnaskipti sem verða í prófskrekk og mömmuskrekk?? Dóa - þú ert öll í þessu - gimme komment on that!!
Annars var ég mega dugleg í gær að læra. Var ekki búin að missa eins mikið úr og ég hélt. Svo þetta er allt á góðu róli hérna. Lék mér meira að segja við að æfa mig í forritun, klösum og smiðum í rólegheitunum og hlustaði á nýja REM diskinn í leiðinni sem kom ágætlega út. (btw Jóhanna ég keypti hann - í London he he)
Við fáum sjónvarpið eitthvað bætt frá tryggingum, ætli við náum okkur ekki í nýjan imba í dag eða eftir helgi. Og mýslugildrur eru komnar víðs vegar um húsið sem eru nota bene skaffaðar af bænum ef svona gerist. Kítara hefur fengið veður af henni, en náði ekki að sjá hana almennilega til að ná að hlaupa á eftir henni.
Er eitthvað svo eirðarlaus, er í engum gír til að læra, er eitthvað stress hjá mér í gangi, finnst ég verða að þrífa, samt í engum gír að þrífa..... æ þið þekkið þetta.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Sjónvörp ekki vatnsþolin...

Jamm þar kom að því að sjónvarpið gaf upp öndina sökum drukknunar. Það gerði þessa líka litlu dembu sem stóð yfir í þó nokkuð marga klukkutíma og hreinlega drekkti sjónvarpinu okkar. Það hafði brotnað úr strompinum og lekið þar niður á milli. (Og auðvitað var sjónvarpið beint fyrir neðan) Það er allavega eina skýringin sem við höfum þar sem hingað til hefur aldrei lekið inn í þessum þekktu austfjarðarúrhellum. Og það má þá líka hafa verið þokkalegt vatnsmagn þar sem það er heil hæð á milli!! Nett pirruð á því að þurfa að punga út fyrir nýju sjónvarpi!
Og svo í ofanálag þá er næturgestur hjá okkur, sem hefur náð að bjargast frá vosbúð og drukknun í gær, semst sloppið inn í eitthvert skiptið sem Kítara hefur farið út. Þó svo ég vilji nú mýslu ekki mein þá vil ég ekki hafa hana í húsinu mínu. Og verður farið í að setja upp gildrur hér og þar til að góma hana. Nema Kítara nái henni fyrst. Hugsa samt að mýsla passi sig á að sýna sig ekki mikið þar sem Kítara er. Kítara hefur veitt mýs áður, er snögg og á auðvelt með að góma þær. Spurning hvernig það gangi hérna innandyra.
Ég er núna að bögglast við að læra, og reyna að koma tíkinni í skilning um það að boltaleikur og fyrirlestrar ganga ekki beint vel saman.
Fór í mæðraskoðun í morgun og allt leit vel út, blóðþrýstingur, piss og hjartsláttur. Smá bjúgmyndun í gangi, svo ég verð víst að láta poppið eiga sig um sinn.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Erfitt að koma sér aftur í gírinn

Ég er enn svo ekki komin heim enn - er enn með hugann í fríinu, úti í London, dreymandi svipur og starandi augnarráð. Ég hreinlega á í miklum erfiðleikum með að koma mér aftur í lærdómsgírinn. Sit hérna fyrir framan lappann (pésinn er á sygehuset í næsta herbergi) og stari á skjáinn. Er að glíma við enskuverkefni (mundi allt í einu eftir því að ég er í ensku 503 líka) sem hefur fengið að sitja á hakanum í vetur (á fullt óklárað í þeim efnunum) Ætla að vinna í þeim á meðan pésinn er lasinn þar sem öll gögnin mín úr HR eru í pésanum. Er að reyna að stressa mig ekki um of vegna prófanna sem nálgast hratt (allt of hratt) Ég náði að afstressa mig algjörlega í fríinu, var ekkert að stressast yfir einu eða neinu hvað varðaði skólann, mjög ánægð með það hafa náð því. Enda veit ég að það er nægur tími til stefnu. Er líka búin að vera dugleg í vetur að læra.
Það var bara svo gaman úti, það var bara svo gott að ná að njóta þess að vera til.

Komin heim frá London

Ahhhh það er nú svolítið gott að komast heim aftur. Við náðum reyndar ekki að gera allt sem okkur langaði til, en það er allt í lagi og má geyma þar til næst. Miðvikudagurinn fór í búðarráp og rölt um hverfi. Hjölli fann sér AA fundi og ég fann fatabúðir á meðan. Fimmtudaginn notuðum við í að finna svo það sem við ætluðum að kaupa og dúllast. Við fórum svo á British Museum á föstudeginum. Við urðum að finna okkur auka ferðatöskur til að komast heim með allt dótið, og heppin að fá ekki á okkur yfirvigt!
Þetta var alveg yndisleg ferð í alla staði. Var rosalega gott að komast aðeins í burtu frá öllu, vera bara maður sjálfur og hafa engar áhyggjur.
Við tókum fullt og hellings af myndum. Bæði venjulegar og videomyndir þar sem við keyptum okkur digital videokameru. Þarf að grisja úr og setja vel valdar myndir á netið handa ykkur að skoða.
Það fór rosalega vel um Kítöru á hótelinu. Hún var sæl og pattaraleg, hafði ekkert horast og leit rosalega vel út. Hún sýndi umsjónarmanninum mikla vinsemd og hlýju sem þýðir að það er góður maður, og hefur verið góður við hana. Hann kallar sig líka afa gamla við hundana. Hún td heimtaði að hann myndi kasta fyrir hana frisbí. Hún var mjög hrifin af honum. Hótelið er snyrtilegt, vel útbúið, vel lyktandi, gott pláss fyrir hundana. Hann setur kröfur á bólusetningar sem er mjög gott. Og miðað við mína fékk hún nóg að borða.
Svo ég mæli með hundahótelinu á Leirum !!!

miðvikudagur, október 27, 2004

Geggjadur timi i London

hallo elskurnar minar,. Thad er buid ad vera hrein snilld herna hja okkur! Vid erum buin ad vera mjog heppin med vedur. Budirnar eru snilld, rosalega mikid haegt ad kaupa og eyda peningunum sinum i. Tolvubudirnar eru nattla bara snilld!! Allt svo odyrt. Vid erum buin ad skoda nokkur sofn lika, Natural History Museum, Science Museum, dagsferd i gaer til Stonehenge og til borgarinnar Bath med Romversku bodunum. Planid er i dag ad fara i British Museum og i London Dungeon. Vid skruppum i bio i IMax bio sem er 3D bio med MEGA stort tjald!! Hrein snilld!
Vid erum buin ad hafa thad rosalega gott og gaman. Hreinlega ad njota thess ad vera bara tvo a ferd og ekkert stress. Ut ad borda a hverju kvoldi, og dekra okkur hreinlega.
Vid erum buin ad labba um fullt af gotum i London, og langar mig til ad skoda Notting Hill hverfid lika, utimarkadina thar.
Vid erum komin i ro um niu a kvoldin, thar sem eg hreinlega hef ekki uthald i ad labba endalaust og verd nattla ad taka tillit til thess ad eg er ekki kona einsomul. Og njotum vid thess ad slappa af, sofna snemma og vakna hress daginn eftir til ad skoda eitthvad nytt.
Bid ad heilsa ykkur ad sinni!

föstudagur, október 22, 2004

London cool mar!!

Vid erum komin a Oxford, og auddad fundum strax internetstad!!! Simar verda a silent svo ef thid viljid hafa samband tha senda meil!
Hafid thad gott
Gudrun og Hjolli

fimmtudagur, október 21, 2004

Komin í borgina

enn og aftur. Vorum komin í hádeginu, svaka dulega að vakna snemma og keyra frá A-eyri. Kítara er á hundahóteli, var soldið erfitt að skilja hana eftir þar, en eins og ég hef sagt áður þá höfum við báðar gott af þessu. Og auðvitað ef þetta gegnur vel með hana núna þá er það gott mál ef mann langar til að skreppa til R-víkur yfir helgi og þurfa ekki alltaf að biðja mömmu og pabba að passa. Hótelið sjálft leit mjög vel út, snyrtilegt og nóg pláss fyrir hundana í búrunum sínum með nægan mat í döllum, og fullann aðgang að útibúri sem er fyrir þá sjálfa. Einnig er stór girðing sem þeir geta allir verið saman. Hún á sennilegast eftir að skemmta sér vel.
En við erum búin að gera það sem við þurftum að gera í bænum í dag. Svo núna er allt klárt fyrir ferðina á morgun og lítið annað að gera en að slappa af þangað til. Áætlað er að fara á Ítalíu í kvöld og bjóða gestgjafanum okkar með. Fóðra þarf fátæka námsmanninn líka!! Sem á það svo skilið þar sem hún gerir lítið annað þessa dagana en að læra.
En þangað til næst - hafið það gott og sjáumst hress!!

miðvikudagur, október 20, 2004

Erum að leggja í hann

og það er ekki laust við að littla hjartað mitt ólmi af spenningi. Veðrið er ok, rigning dauðans, og eins og áður hefur komið fram þá var ég einmitt að vonast til þess svo snjórinn færi áður en ég keyrði yfir örævin. Og eins og vanalega lítur út fyrir að Fagridalurinn (milli Reyð og Egs) er verstur.
Svo maður ætti ekki að vera í neinum vandræðum ef maður keyrir eins og manneskja.

þriðjudagur, október 19, 2004

Vaknaði kl fjögur

gat ómögulega sofnað aftur. Snjórinn er að bráðna strax aftur og það eru rigningarlæti úti, og auk þess sem ég hrekk alltaf við þegar snjórinn fellur niður af þakinu, blautur og þungur og skellur á jörðinni fyrir neðan gluggann minn.
Svo ég ákvað að nýta tækifærið og læra á meðan svona rólegt væri. Tilvalið að hlusta á nokkra fyrirlestra með kaffibolla í rólegheitunum. Enda vil ég ekki koma heim frá London og eiga mikið uppsafnað.
Hlakka ekkert smá mikið til að fara.

mánudagur, október 18, 2004

sorry.... London here I come!!

ok það er ekki hlaupið að því að fara til US með skömmum fyrirvara svo við fengum að breyta og förum til London í staðinn. Og fáum flugmiðunum breytt í pakkatilboð með hóteli og alles. Við höfum hvorugt farið til London svo það verður bara gaman að sjá eitthvað nýtt. Hlakka geggjað til !!! Svo núna förum við út 22 okt og komum heim 29 okt! Keyrum semst suður á fimmtudag.
Og úti snjóar og snjóar! Það er búið að snjóa síðan um 10 í morgun og guttarnir eru þegar farnir að hreinsa götur. Búin að fara í rallýbílaakstur í skaflinum sem myndast alltaf á stæðinu mínu, og er alltaf jafn ánægð með góða bílinn minn sem er þokkalega duglegur í snjó!
En það er svo eins og vanalega önnur saga með blessaðan lærdóminn og skilning minn á honum. En ég er búin að ná að klambra saman alveg sjálf svona þokkalega í áttina að því sem við eigum að skila á þriðjudag, þe á morgun. Kemur allt í ljós.
Ég er að fara til London - jey!!!

laugardagur, október 16, 2004

Orlando here I come!!!

Við ætlum að skella okkur í smá reisu. Eigum flug til Orlando 24 okt, og heim aftur 2 nóv. Hlakka geggjað til - stressuð og spennt en hlakka meira til svo stressið skyggir ekkert á. Kítara verður á hundahótelinu á Kjalarnesi, hún (og ég líka) hefur bara gott af því. Knúsan okkar hún Dóa ætlar að hýsa okkur þá daga sem við verðum í bænum en áætlað er að koma aftur í bæinn á fimmtudag næsta!
Okkur er búið að langa til að fara út í langan tíma, bara tvö ein, gera eitthvað bara tvö ein. Og núna er ágætis tími, mér líður vel, get tekið viku frá námi (með að læra hellings og meir á undan og á eftir - en það er vel þess virði) þar sem prófin byrja ekki fyrr en um miðjan nóv. Ljósmóðirin mín sagði að það væri ekkert því til fyrirstöðu að fara, ég væri hraust, okkur báðum liði vel (mér og bumbubúa) svo við ættum endilega að nýta tækifærið á meðan gæfist. Guð má vita hvenær við fáum tækifæri til þess aftur!!
Sem sagt taka frí frá öllu áður en allt byrjar!

föstudagur, október 15, 2004

Föstudagur í mér

Ég hreinlega nenni ekki að læra núna. Ætti að vinna að verkefni í C++ eða klára heimavinnu í Enskunni, en ég bara hreinlega er í engu stuði. Hjölli var að reyna að setja í vélina mína þá stærstu örraviftu sem ég hef séð og hún er enginn smá hlunkur. En hún passaði ekki (grátur grátur) svo ég verð að halda áfram að þjösnast ekki á vélinni minni. Ég hef Tölvulistann grunaðann um græsku þar sem Hjölli keypti uppfærslu í tölvuna mína í vor, og sú uppfærsla hljómaði upp á 3200 örra, ok flott kúl, en svo þegar átti að fara að yfirklukka græsið þá var ekki alveg allt eins og átti að vera og Hjölli fór að skoða örrann - þá er hann yfirklukkaður í 3200!! og þar af leiðandi hitnar hann frekar mikið því viftan er ekki alveg að höndla álagið. Örrinn sjálfur er ekki nema 2700 !! hmm Hjölli ætlar að athuga þetta betur og gera vesen ef þetta reynist rétt (ég persónulega hef aldrei treyst Tölvulistanum, hef alltaf neytenda bókina við hendina þegar ég þarf að eiga eitthvað við þá)
Magnað að pikka þegar maður er búinn að klippa klærnar!!!

fimmtudagur, október 14, 2004

Mikið gott að koma heim.

Mánudagskvöldið hitti ég Jóhönnu aftur, semst höfðum betri tíma til að spjalla og sömuleiðis hittum við Vésa. Sátum heillengi og böbluðum út í eitt.
Þriðjudagurinn var tekinn með rólegheitum fram eftir. Fórum í sund, fengum okkur morgunverð og kíktum í Kringluna. Verlsaði mér fleiri föt og var það smá góð tilfinning. Núna get ég litið sómasamlega út, og ekki alltaf verið í sömu flíkunum.
Náðum okkur í mega flott tilboð í Elko. Uppþvottavél með 30þ afslætti þar sem hún hafði verið send fyrir mistök út á land. Ég smá happy - auk þess náðum við okkur í heimilissíma, svo núna er hægt að hringja í mig heimasími vs heimasími og spara þannig nokkuð margar krónur!!! Náði þar í CSI 2 leikinn Dark Motives, en hann mun sennilegast verða desemberleikurinn minn þegar prófin eru búin og ég get lítið annað gert en að liggja í sófa með lappann á kúlunni :o)
Við lögðum af stað úr bænum um þrjú, kíktum í kaffi til vinafólks okkar á Akureyri, og vorum komin í Mývó um 22:00 mega þreytt.
Tíkin varð vitlaus þegar hún hitti okkur aftur, hljóp í hringi og vissi ekkert hvernig hún átti að láta.
Tókum gærdaginn (miðvikudag) rólega fram yfir hádegi. Mamma var á morgunvakt og ég vildi ná á henni áður en við færum austur aftur. Nappaði af henni skyrtur sem passa vel utan um mig og sumar sennilegast vel út meðgönguna :o)
Brunuðum svo heim, og það var skelfilega gott að komast heim. Gerðum ekkert nema að henda pizzu í ofninn og leggjast í leti fyrir framan imbann. Tíkin lagðist strax til fóta á lazy-boy og þar sofnuðum við tvær fyrir klukkan átta - algjörlega búnar á því.
Annars er dagurinn í dag búinn að vera fínn. Naut þess að fá mér gott kaffi úr nýju cappucino vélinni minni (slurp). Annasamur fyrir hádegi, lærði á fullu og tók miðannarprófið mitt í Tölvuhögun, sem ég er meira að segja búin að setja í sniglapóst til kennarans.
Hjölli setti upp ofninn í herberginu mínu svo núna er ég alveg laus við að vakna á morgnana og hríðskjálfa á meðan það er að hitna. Áður var ég með svona frístandandi olíuofn sem stungið er í samband. En vegna þess hve miklu rafmagni hann eyddi þá var maður ekkert með hann í gangi í tíma og ótíma, heldur lækkað á honum yfir næturnar, kynnt vel á morgnana og svo lækkað aftur þegar ætluðum hita er náð. Laus við þetta bras núna = magnað!!

mánudagur, október 11, 2004

Hætt í dag

Þá erum við komin í stopp eftir daginn. Enda búin að vera geggjað dugleg í dag. Hittum Vilborgu í hádegismat, sem var frábært, alltaf gaman að hitta hana! Og eftir daginn eigum við fullt af nýju flottu dóti:
  • Náðum í ofna og kaminu og komum þvi á bíl heim.
  • Náðum í hundamat, fyrir okkur og pabba, og nýjar hundamatarskálar handa prinsessunni.
  • Náðum okkur í nýja flotta kaffivél á afslætti í Byko sem gerir geggjað kaffi, og ég keypti fullt af góðu kaffi til að hafa með heim þar sem búðin heima selur bara þetta venjulega merrild og gevalia kaffi.
  • Fórum og náðum okkur í nauðsynjar fyrir tölvurnar, viftur aðallega.
  • Náði mér í olíu í Þumalínu sem varnar sliti og er góð sem nuddolía, hlakka til að byrja að nota hana og slaka á.

Núna sitjum við í pásu. Ætla að ná að hitta á Jóhönnu á eftir yfir rólegum kaffibolla. Hjölli ætlar að hitta Vésa vin sinn yfir rólegum kaffibolla - en sennilegast á öðru kaffihúsi.

Góðir dagar.

Jamm þetta er búið að vera skemmtilegt. Við fórum þreytt í sund á laugardaginn og komum endurnærð í mat til systur Hjölla á laugardagskvöldið. Mjög ánægjuleg stund þar.
Sunnudagurinn hófst með sundi og svo brilliant morgunverði á Gráa Kettinum. Klassi að geta sest inn svona snemma á sunnudegi, fengið sér staðgóðan morgunverð, kaffi og litið í blöðin áður en skólinn byrjaði þann dag.
Skólinn var fínn. Var virkilega ánægð með útkomu úr verkefninu mínu og miðannarprófstesti sem við tókum svo að segja upp á sportið þar sem það gildir ekki. Lærði hellings og meir í gær, réðst á kennarann og pikkaði breinið hans á milljón, og spurði hann um allt sem ég hef verið að velta fyrir mér. Líður miklu betur á eftir, og náði að öðlast meira sjálfstraust varðandi námið. Hann líka sagði að hann hefði engar áhyggjur af mér þar sem hann fyndi fyrir góðum skilning hjá mér varðandi hvað við værum að læra og gera.
Eftir skóla í gær fórum við að sjá myndina Cellular í Laugarásbíó. Mjög skemmtileg mynd, en flottast þótti mér auglýsingin frá Smáís í startið. Langaði helst til að taka hana upp á videocameru og lóda henni á netið.... bara svona upp á sportið :o)
Svo loks náði ég að hitta á Dóu vinkonu. Sátum á Kaffi Victor og áttum fína kjaftistund.
Svo í dag byrjaði dagurinn kl sjö, í sund, bíllinn bónaður, kaffi á Mílano, fullt af stöðum til að fara og vinna og skoða og brasa og útrétta. Núna er smá stund til að pústa. Sviss mokka á Victor.
Hádegismaturinn er lunchdate með Vilborgu. Hlakka til að hitta hana líka. Þá er ég búin að ná að hitta 3 af mínum 4 bestu vinkonum :o) Og verður það að teljast mjög gott þar sem tíminn hefur ekki verið of mikill. Á svona helgum mætti sólarhringurinn vera allt að 36 klst svo maður nái að gera allt og hitta alla sem mann langar til að hitta.
Mamma er búin að hringja daglega með skýrslu varðandi tíkina, en hún hefur það rosalega gott, popp, pizzuskorpur, labbóar og dúll. Yndislegt, sakna hennar smá......

sunnudagur, október 10, 2004

Verð að segja ykkur!

En ég var að fá úr skilaverkefni 3 og viti menn - þó svo ég hafi ekki náð að klára það fyllilega þá samt náði ég að klára það sem hann vildi fá og ég fékk 10!!
Takk fyrir aðstoðina mín kæra Vilborg!!

laugardagur, október 09, 2004

Lifði af

jæja þá er dagur 1 búinn í skólanum. Byrjaði kl níu í morgun og við fórum yfir 3 kafla í bókinni. Sem annars var tekið í dagnáminu á miklu fleiri dögum. En þetta var fínt samt sem áður, þó síðasta klukkutímann var heilinn 0rðinn nokkuð gegnsósa af informations.
Núna ætlum við að slaka okkur niður og fara í sund, áður en næsta lota tekur við í dag, en það er matarboð hjá systur Hjölla og hele familien.
Hafið það gott dúllurnar mínar

föstudagur, október 08, 2004

Þreyttur...

Þegar maður er ekki kona einsömul þá hefur maður hreinlega ekki sama úthald og undir venjulegum kringumstæðum. Núna er ég gjörsamlega uppgefin og klukkan ekki orðin sex. Erum búin að gera fullt í dag, en vegna óviðráðanlegra orsaka þá gátum við ekki gert nærri allt.
Langar til að hitta alla, hef verið að hugsa um "opinn kaffihúsatíma" en hreinlega hef ekki glóru um hvenær sá tími ætti að vera. Er í hádegishléi í skólanum báða dagana, sennilegast klukkutíma í senn. En þori þó ekki að staðfesta það hér og nú. Kannski möguleiki á eftir skóla á morgun, þe eftir kl 16:00 á einhverju kaffihúsi. Kannski mælir Dóa með Amokka kaffi??

fimmtudagur, október 07, 2004

Höfuðborgin

Sælinú
Við erum komin í menninguna, á grútskítugum bíl, á nöglum. Við löggðum af stað í sveitina í gær þar sem Kítara heldur sig við mjög svo gott yfirlæti (búin að fá popp og vídeó í dag) Setti naglana undir í gærmorgun áður en við héldum af stað, og þó þeir spænist kannski upp hérna á suðurlandi, þá sá ég sko ekki eftir því í gær á leiðinni frá Egs í Mývó, þar sem það var hált sumstaðar á leiðinni, og tvisvar keyrðum við framhjá bílum sem hreinlega höfðu flogið langt út fyrir veginn. Semst veturinn með hálkunni kom greinilega sumum ökumönnum á óvart.
En við löggðum af stað snemma í morgun til að geta nýtt daginn eitthvað hérna í dag.
Um helgina er svo vinnulota hjá mér í skólanum - laug frá 09:00 - 16:00 og sunn frá 10:00 - 16:00. það verður bara gaman að sjá aftur framan í liðið og ná að spyrja kennarana almennilega um þá þætti sem liggja ekki alveg ljóst fyrir.
En semst ferðin gekk vel, þó sé ekki það auðveldasta að keyra þessa leið komin á 7 mánuð. Þurfti að stoppa í hverri sjoppu til að rétta úr mér og pissa.
En súkkulaði kaffið á café Victor er eins og plástur á þreytuna sem myndaðist við aksturinn.
Hafið það gott dúllurnar mínar.

miðvikudagur, október 06, 2004

Stormur, kertaljós og kaffi...

Vaknaði við þetta sama og venjulega. Kom mér engann veginn fyrir. Fór niður á klóið, mætti tíkinni með sitt litla hjarta; hún gat ekki sofið sjálf vegna stormsins sem glymur úti. Leyfði henni að skríða til okkar. Kannski fannst mér líka sjálfri betra að hafa hana hjá mér. En lætin í veðrinu orsökuðu það að ég gat ómögulega sofnað aftur.
Skreið framúr, þau rumskuðu, lyftu hausum, löggðust svo aftur og steinsofnuðu. Ég ákvað að hella mér upp á kaffi, ilmandi súkkulaði möndlukaffi, kveikti á kertum og hækkaði á ofninum í tölvuherberginu. Ekkert smá notalegt.

sunnudagur, október 03, 2004

Flottasta tölvuherbergi

í heimi!!!! Það er mitt tölvuherbergi núna!! Hjölli snaraði parketti á í dag, og það er svo flott að sjá það, gefur herberginu allt annað lúkk, stækkar það og lýsir upp. Hjölli setti einnig upp hillu fyrir ofan skrifborðið mitt með ljósi, svo núna er lýsingin yfir borðið allt önnur. Allt annað að sitja og lesa og læra núna!! Auk þess sem þá skapast meira pláss á borðinu (sem annars er huge) Meiriháttar!!!!

Skemmtilegur laugardagur

Og rólegur sunnudagur - en sem komið er.
En í gær gat ég ekki sofið nema til fimm. Á stundum erfitt með að koma mér fyrir í rúminu svo þægilegt sé að sofa. Er enn að venjast þessari kúlu minni sem á bara eftir að stækka.
Svo ég fór framúr og byrjaði að læra. Tók Tölvuhögun fyrir og kláraði alla fyrirlestra sem ég átti eftir og fór í saumana á köflunum sem ég hafði ekki náð að fara í almennilega.
Um tíu skriðu þau á fætur, og þá færðist aðeins meira líf í húsið. Hjölli kláraði að parkett leggja herbergið sitt og það lítur geggjað vel út!!
Eftir hádegi ákváðum við að skella okkur til Egs, bara svona til tilbreytingar. Auk þess fannst Hjölla búrið, frystikistan og ísskápurinn eitthvað tómlegt. Hlutir sem ég hreinlega fatta ekki.
Biluð rigning, en who cares! Svo við fórum í Bónus, og BT (merkilegt nokk við versluðum ekkert i BT !!! ) Og í sund! Ohhh hvað það var gott að komast í sund, og í pottinn, bara til að slaka sér niður og slaka á. Splæstum hömmurum í söluskálanum, og þeir eru geggjað góðir þar. Semst svona algjör dekurdagur hjá okkur.
Þegar heim var komið var ég alveg búin - enda klukkan orðin sjö. Þá bara slappaði ég af fyrir framan tv, tölvulaust.
Núna er ég búin að ryðja úr herberginu mínu ölllu sem ég má ryðja sjálf. Hjölli ætlar að leggja parkett á það í dag. Svo núna sitjum við Kítara í lazyboy, með tölvuna á milli okkar (eða svona - þarf reglulega að ýta eyranu hennar í burtu af lyklaborðinu) gæðum okkur á súkkulaðibitakökum aLa Dóa, og látum fara vel um okkur. Enginn lærdómur í dag, ekkert stress, bara afslöppun!

laugardagur, október 02, 2004

****geisp****

Jamm ég er vöknuð og meira að segja þó nokkuð síðan. Þetta eru afleiðingar af ótalmörgun klósettferðum og vegna líkamlegra breytingar sem gera það að verkum að maður getur engann veginn komið sér fyrir.
En nóg um það, nýt þess að sitja og hafa það náðugt í kyrrðinni, sötra ljúffengt kaffi og vera ekkert að stressa mig á hlutunum, það er jú laugardagur í dag.
Hjölli kom heim um hádegið á miðvikudaginn. Allt gott og blessað varðandi það. Kom heim með fullt fullt af parketi - jey!!
Mamma, Þórhalla systir og Hjörtur Smári komu á fimmtudaginn. Var frábært að hitta þau, og áttum notalegan dag saman. Og mamma sagði að það ætti ekki að vera neitt mál að passa fyrir okkur í næstu viku - svo ég get farið róleg til R-víkur, vitandi að það fer vel um litlu prinsessuna mína. Svo við komum í bæinn á fimmtudaginn!!
Gærdagurinn fór í verkefnið, alveg! Reyndar hafa allar lausar stundir hinna daganna líka farið í þetta blessaða verkefni. Og aftur kom Vilborg mér til aðstoðar þessi elska!! Hún náði að skýra út fyrir mér hluti sem kennarinn var í engri átt með! Way to go Vilborg!!
Hjölli Byrjaði á að parketleggja sitt herbergi, klárum það í dag, og ráðumst svo á mitt herbergi. Rosalega verður gaman að losna við þetta gamla teppi af herberginu, enda er líka allt annað að sjá herbergið hans í dag! (ég er þá alltsvo að tala um tölvuherbergin okkar)
Já við fórum í mæðraskoðun á fimmtudaginn. Allt í gúddí, life and kicking, nema ég er með grindarlosun eitthvað á byrjunar stigi, og á að dæla í mig b1 og b6 vítamínum. Þetta er eitthvað afar algengt og enn ekkert til að hafa áhyggjur af segja þeir, enda er þetta ekkert að há mér eins og hann (læknirinn) hélt í fyrstu. Verkirnir sem ég hef leiða ekkert út frá sér, og ef ég passa mig og fer rólega í hlutina þá ætti ég að vera ok. Nema ég má ekki ryksuga og hitt og þetta.
En helgin er frátekin undir Tölvuhögun þar sem hún hefur fengið að sitja á hakanum sl viku. Og afslappelsi þar á milli. Kannski meira að segja næ ég að plata manninn minn með mér í sund...
Eigið góða helgi dúllurnar mínar!!

miðvikudagur, september 29, 2004

Taka til.... glúbbb

Systir mín elskuleg var að hringja og segja mér að hún og mamma ætli að koma í heimsókn á morgun - ég þarf að fara að taka til maður lifandi..... Vildi óska að ég hefði fengið að halda hreingerningarfólkinu sem ég hafði í US, þá væri maður ekkert að spá í þetta......
En það býttar ekki - mikið verður gaman að fá þær í heimsókn!!! Hlakka svo til að sjá þær!

Lítið að gerast

  1. Ég er búin að sitja með sveittan skallann yfir verkefni, sem mér gengur afar erfiðlega með, erum að læra um nýja hluti sem ég hef ekki náð almennilegum tökum á enn. En það vonandi kemur - ætla allavega ekki að gefast upp þrátt fyrir smá hindrun á leiðinni (hefur ekki verið minn vani hingað til)°
  2. Von er á Hjölla heim í dag, með meira parkett til að leggja á gólfin hérna niðri.
  3. Krosslegg putta hvað varðar deilir.is og vona að þessar elskur lendi ekki í miklum vandræðum (hafa þeir oft bjargað mörgum kvöldum frá RÚV).
  4. þarf að fara að grafa upp ullarsokkana mína því það er farið að kólna ískyggilega mikið hérna fyrir austan (þurfti meira að segja að skafa í gær)
  5. Er farin að hlakka til að fara suður í næstu viku...
  6. Grauturinn í hausnum er ekkert að skána (hmmm kannski er einhver tenging þarna á milli hvað varðar erfiðleika mína varðandi verkefnið)
  7. Og enn fækkar fötum sem ég get notað í skápnum mínum.
  8. Peningamálin í mínus, literally.
  9. Er með alveg óþrjótandi löngun í Ning's (sem er náttla auddað vegna þess að það fæst ekki neinstaðar í nágrenni við mig)
  10. Lífið er yndislegt

mánudagur, september 27, 2004

verð að láta heiminn vita

að ég sé gjörsamlega að drepast í bakinu!!! Svo það verður ekkert skúrað í dag... (hmpf eins og það hafi verið planað..right)
Hundurinn er eins og fellibylur um húsið þar sem ég keypti handa henni mega skopparabolta handa henni. Hún getur leikið sér með þannig bolta endalaust, alveg ein! Læðist ekki uppað manni, svo lítið beri á og leggur boltann í fangið á manni svo maður kasti fyrir hana - þessi kastast að sjálfu sér :o) tilvalið þegar maður er að reyna að læra.

sunnudagur, september 26, 2004

Rok, Tinni og pizza.....

Erum einar heima. Við keyrðum til Eskifjarðar í gær og ég var við því búin að gista þar sl nótt ef ske kynni að þeir myndu klára verkefnið í gær og í dag. En þar sem veðurspárnar standast aldrei (þe dagsetningar spánna) þá var þeim lítið úr verki í gær, og mér skilst enn minna í dag. Enda er klikkað rok úti (og rigning þegar henni hentar).
Svo við Kítara fórum aftur heim í gær. Óvitað er hvenær Hjölli kemur (fer semst eftir veðri ).
Ég vildi nýta daginn í dag almennilega undir lærdóm, sem ég og gerði. Er að berjast við eitt skilaverkefnið í C++. En ætla ekki að örvænta strax, hef tíma fram á föstudag til að ná því í gagnið.
Svo dagurinn í dag fór í lærdóm og kvöldmaturinn var pizza sem ég náði að búa til alveg sjálf. Og ligg núna fyrir framan imbann og er að horfa á Tinna teiknimyndir.

föstudagur, september 24, 2004

Lægð...

Vorum að koma aftur heim. Gerði geggjaða rigningu og rok svo þeir gátu sama og ekkert unnið í þessu í dag sem þeir ætluðu. En fóru samt snemma í morgun af stað og ég réðst á lærdóminn á meðan. Förum sennilegast aftur á morgun.
Er einhvern veginn ekki að nenna neinu núna. Þýðir ekkert fyrir mig að læra í þannig ástandi, færi allt í rugl í hausnum á mér. Svo kannski væri ég bara best geymd fyrir framan tv....??

fimmtudagur, september 23, 2004

"Verð að fara að hlusta"

Sko undanfarið er ég búin að standa sjálfa mig að því að vera að tala við Hjölla og fleiri, og svo rétt á eftir er ég búin að gleyma stórum parti af samræðunum. T.d. áðan þurftum við í sjoppu, og ég spyr hann hvort hann langi í eitthvað að drekka. Jú hann bað um Grænan Powerade. Ok. Ekkert mál. Ég fer inn í sjoppu, kemst strax að (hann beið í bílnum) og ég var búin að gleyma því sem hann sagði. Ég hreinlega mundi ekki hvort hann hafði beðið um grænan eða bláan powerade. Samt voru ekki liðnar nema kannski 2 mín síðan hann sagði þetta við mig.
Ég í öngum mínum sagði við stelpurnar í sjoppunni, Lísu eiganda og Boggu dóttur hennar (sem ég var btw með í skólanum í vetur) að ég yrði að fara að hlusta meira á manninn minn. En þær hlógu bara að mér, sögðu mér að hafa ekki áhyggjur af þessu; þetta væri fylgikvilli þessara 9 mánuða. Þetta myndi lagast að þeim liðnum. Hmmm, mér finnst þetta nú bara ekkert sniðugt!! Þetta hefur ágerst undanfarið, ég finn fyrir hve gleymin ég er, og ekki bara gagnvart Hjölla, heldur td mömmu minni og pabba (og reyndar öllu). Mér finnst þetta geggjað óþægilegt, en reyndar létti mér mikið þegar ég heyrði að þetta væri eðlilegt - ég var farin að hafa mega miklar áhyggjur af mér!!

öp tú deit

Er búin að sitja við tölvurnar í morgun og flétta skólabókunum. En eins og suma daga þá einhvernveginn tekur maður öllum truflunum fegins hendi því maður er ekkert að ná að festa sig við efnið og einbeita sér.
Lærði ekkert í gær. Og var heldur ekkert að hafa samviskubit yfir því. Komst hvort eð er ekkert inn í tölvuherbergi því Hjölli flotaði holið á þriðjudagskvöldið og það var lengi að þorna. Ég alveg sátt við það. Enda núna áðan laggði hann parket yfir og holið er geggjað núna. Ekkert smá gaman að sjá svona breytingar í húsinu sínu. Enda langar mig líka geggjað til að leggja parket á tölvuherbergið mitt.
Annars er næst að flota yfir þvottahúsið og mála svo yfir þar. En þegar maður sér það svona tómt þá fattar maður hve ótrúlegt rými er þar inni. Skil stundum ekki alveg hvernig sá sem byggði þetta (eða öllu heldur gerði upp á sínum tíma) hugsaði nýtingu og rými á þessari hæð. T.d. hefði ég stækkað baðherbergið um allavega helming á kostnað þvottahússins og samt átt eftir nóg pláss þar inni. Enda er það líka á dagskránni hjá okkur.
Ég er núna búin að á í allt efni af netinu og lóda í lappann því við förum inn á Eskifjöð á eftir. Hjölli er að fara að hjálpa pabba sínum og ég nýti tímann til að læra, enda ekkert annað að gera. Auk þess kemst ég ekki á netið svo ég hef enga afsökun.

þriðjudagur, september 21, 2004

Parket, gólfflot og barnavagn....

Annars er það nýjasta núna að við erum að fara að parketleggja holið hérna niðri og klára þvottahúsið. Mikið hlakka ég til þegar það er komið, verður svo flott að sjá þetta svona nýtt og flott!!
Fórum semst í gær og gripum þetta hjá Byko. Auk þess sem við náðum í á góðu verði barnavagn og barnarúm uppi á Egs. Allt mjög vel með farið, og vagninn er svona græja sem maður getur böglað saman, tekið í sundur, notað sem kerru og laust burðarrúm.
Fyrir ykkur sem ekki hafið heyrt enn þá er von á litla erfingjanum 29. desember. En eins og hjá öllum getur sú dagsetning farið upp og ofan. En gott er að hafa hana svona til að miða við. Við ákváðum að byrja á að sanka að okkur því sem við þurfum - aðallega til að dreifa kostnaði.

Tilraunir á tölvum

Ég var að læra, hlusta á fyrirlestur í tölvuhögun. Og þar kom upp sú spurning hvað gerist í tölvu ef örrinn er algjörlega dauður. Nú kennarinn gat ekki svarað því almennilega þar sem hann hafði aldrei lent í þeirri aðstöðu.
Nú við Hjölli tókum okkur til og athuguðum hvað gerðist. Tókum gamlann örra, sem virkaði fínt og settum hann í móðurborð/tölvu sem við áttum til og vorum ekki að nota. Og komumst að því að þegar örri er alveg dauður (þar sem við yfirklukkuðum hann þannið að hann sprakk) þá gerist ekki neitt - það kemur straumur á systemið en skjárinn fær ekki samband, ekki neitt - auk þess þar sem skjárinn og skjákortið fær ekki samband þá komumst við ekki einu sinni í biosinn sem er grunnur móðurborðsins til að sjá hvað er að. Og ef maður fiktar enn meir þá eru góðar líkur á að maður steiki móðurborðið og powersupplyinn.
Þetta var mjög gaman að prufa!! Mæli ekki með þessu fyrir fólk sem veit ekki alveg hvað það er að gera og sérstaklega og alls ekki á dýru flottu vélunum sínum!!
En hve margir nemar hafa þá aðstöðu að prufa svona hluti??

mánudagur, september 20, 2004

Kaffi - jey!!!

Vissuð þið að október nálgast hratt? Ég leit á dagatalið og mér brá þegar ég fattaði þetta. Mér finnst enn eins og september sé bara ný byrjaður.... oh well..
Ég er alveg hæst ánægð með að tilkynna ykkur að ég get drukkið kaffi aftur :o) Ekki mikið en samt! Byrjaði hægt og rólega með að blanda saman swiss miss og drekka svona súkkulaði kaffi (með viðbættu súkkulaðisýrópi og heslihnétusýrópi) Og í morgun ákvað ég að prufa venjulegt kaffi svart og sykurlaust eins og það er best og viti menn - það bragðaðist ljúffenglega!! En undanfarna mánuði hef ég hreinlega ekki getað drukkið kaffi - en verið sólgin í spægipylsu (ég sem venjulega borða alls ekki spægipylsu) Svo núna rennur um æðar mér koffein - my long lost buddy!!
Annars var gærdagurinn rólegur. Spilaði leik sem heitir American Conquest sem er ágætur. Mjög svipaður Age of Mythology og allir þeir leikir.
Við erum að fara á eftir upp á Egs til að athuga með barnarúm og vagn sem er til sölu notað á góðu verði. Um að gera að fara að huga að þessum hlutum og dreifa kostnaði.
Later hon's

laugardagur, september 18, 2004

Þreytt eftir daginn

andlega ekki líkamlega. Var samt ánægjulega öðruvísi en venjulegir dagar. Vorum hjá Gumma og Rímu í nær allann dag. Hjölli var að aðstoða Gumma við að komast almennlega á netið. Koma honum inn á deilis höbbana og setja hann af stað í up og downlód. Við Ríma skiptum okkur ekkert af þessu, sátum og kjöftuðum. Skoðaði áhugaverða bók um meðgöngu og fyrstu mánuði á eftir. Margt nytsamlegt sem ég las þar. Þau buðu okkur svo í kvöldmat, góðan sukkmat frá eina skyndibitastaðnum hérna; sjoppunni. En sú sjoppa býr til þá albestu hammarra sem ég hef smakkað.
Ég er bara þreytt vegna hve lítið rýmið er hjá þeim, og þegar fjórar manneskjur eru í svona litlu rými svo lengi þá verður maður þreyttur.
Í hádeginu í dag þá var mér hugsað til þess hvað ég myndi gera af mér í dag ef ég byggi enn í R-vík. Ég var í svona kaffihúsa-Kringlu-Laugavegsröltsstuði. Hefði sennilegast hringt í einhverja vinkonu/vin og setið á kaffishúsi og kjaftað. Helltist yfir mig söknuðartilfinning. Söknuðar í að breyta út af hinni venjulegu rútinu, brjóta upp hið daglega líf og daglega mynstur. Svo dagurinn í dag var ágætis tilbreyting. Fæ þessar tilfinningar afar sjaldan nú orðið. Og þá finn ég mér eitthvað að gera til að gleyma henni. Í vetur var það yfirleitt í þessum köstum sem ég henti hundi og dóti út í bíl og brunaði í sveitina. En þá kom þessi tilfinning sterkari inn þar sem ég var ein hérna og það var erfitt. Stundum á sunnudagskvöldum í vetur áttaði ég mig á því að einu samtölin sem ég hafði átt yfir alla helgina voru við tíkina, og ó boj ef hún gæti talað, gæti hún sagt frá mörgum leyndarmálum. Og oft hugsa ég til þess með hryllingi ef ég hefði ekki átt hana í vetur.

föstudagur, september 17, 2004

Nýjar myndir

hæ var að setja inn nýjar myndir á idiotproof síðu sem gerir þetta allt næstum fyrir mann - ef maður er latur og nennir ekki að búa til flottar síður utan um myndirnar en kíkið á Sjón er sögu ríkari , einnig er linkurinn hér til hliðar og ætla ég að setja þar inn vonandi reglulega myndir handa ykkur dúllurnar mínar.

Rigning, símar og themes.....

Ég ákvað í gær að læra ekki neitt. Ákvað að eiga frídag fyrir mig, ekkert stress, ekkert vesen, bara næsheit. Og merkilegt nokk þá meikaði ég að standa við það!!
Það var úrhelli í gær, var þannig ekki mikið rok, en þegar ég fór með tíkina í gærmorgun þá kastaði ég fyrir hana 3x frisbí disknum og við urðum holdvotar á að standa í 2 mín úti í rigningunni. Rúðan farþegarmeginn í bílnum hafði verið opin (minna en 1cm rifa) og farþegasætið var soaked!! (og enn blautt í morgun þegar ég fór út) Það hafði opnast þar sem Hjölli hafði verið að vinna uppi á hæð 2, og rigningin hefur frussast þar inn, og auddað lak niður til okkar, æðislegt!! Hjölli prílaði upp og lokaði aftur og kom rennandi inn. Þvílíka helvítis vatnsmagnið. Meira að segja tíkin hélt í sér til að þurfa ekki að fara út í svona veður (finnst ekkert gott að fá rigningu í eyrun)
Svo gærdagurinn fór í notalegheit og dund. Ég prufaði að setja upp ný theme á tölvuna, fann þau á www.litestep.net mörg mjög flott theme. Panicaði hins vegar þegar ég fann ekki strax hvar ég gæti svissað yfir í gamla xp themið, en það hafðist. Maður þarf að ná í installer af síðunni til að geta sett um themin og svo nær maður í þau sem maður vill hafa, sniðugt. Ég ákvað að uninstalla ekki forritinu - kúl að geta skipt um eftir í hvernig skapi maður er í.
Erum að spá í að renna til Egs í dag. Vantar blek og ég ætla að reyna að finna mér ódýran síma til að hafa hérna í tölvuherberginu mínu. Var að fá símareikn í gær og össss mar hvað gemsasímtöl í heimasíma eru miklu dýrari en úr heimasíma í heimasíma. Heimasíminn var skráður með 54 símtöl á um kr 500.- og gemsinn minn var með 51 símtal á nær kr 1.900.-!! og tíminn var nánast hinn sami - munaði 10 mín ! Svo hér eftir - þið sem eruð með heimasíma - já ég ætla að fara að hringja í þá frekar úr heimasíma!!

miðvikudagur, september 15, 2004

Skóf í morgun

Jamm og jæja - þá byrjar ballið. Í dag var fyrsti dagurinn sem þurfti að skafa af bílnum. Og var frekar þykkt á - frosthrím, ekki snjór ennþá. Og skítakuldi úti, en afar frískandi!!
Ég er búin að vera að læra í nær allan dag. Hugsa núna í 01010011, og sé þessar tölur fyrir mér í hvert skipti sem ég loka augunum. En ég skemmti mér geggjað við að grúska í þessu í dag.
Annars er lítið að frétta. Ætla að taka mér frí á morgun frá lærdómi eða föstudag, jafnvel skreppa til Egilsstaða í sund og já bara gera mér dagamun, þar sem ég hef ekki litið upp úr skólabókunum síðan einhvern tímann fyrir sl helgi.
Rima kíkti svo í kaffi eftir hádegið reyndar (tók hádegishléð mitt þá) með litla guttann sem er orðinn 2 mánaða. Vá - hvað tíminn líður hratt, áður en ég veit af verður minn tími kominn. Huh... þarf að lifa af október í verkefnaskilum og nóvember í prófum áður en þar að kemur, svo ég er ekkert að stressa mig neitt á þessu strax (nóg er skólastressið)

þriðjudagur, september 14, 2004

Vilborg hetjan mín

Og ég sat í gær og lærði og prufaði alls kyns lausnir. Var komin vel áfram en alltaf var eitthvað sem ég sá ekki og forritið mitt virkaði ekki eins og það átti að gera. En svo hringdi Vilborg eins og "knight in shining armour" og benti mér á hvað væri að! Life saver!! Takk takk takk mín kæra!!!

sunnudagur, september 12, 2004

Gaaarrrggghhhh!

Er orðin nett pirruð á þessu verkefni. Ég er búin að prófa alls kyns tilraunir en ekkert gengur. Það versta er að ég finn ekkert í námsefninu sem gæti gefið hint á hvernig væri best að leysa þetta. Og það sem meira er að ég er ekki sú eina sem er svona vitlaus því hinir sem eru með mér í þessu eru alveg jafn clueless og ég.
Núna sit ég með ferðavélina uppi í stofu - leiðinlegt sjónvarpsefni, nenni ekki að setja neitt á tölvuna til að horfa á, og ef ég sest niður í tölvuna þar þá enda ég með að ergja mig frekar á þessu verkefnadrasli. Og eftir nokkra (frekar marga) klukkutíma þá hef ég ekki orku né geðheilsu í það.
Þannig er dagurinn í dag búinn að vera.
Hjölli eldaði geggjað lambalæri í matinn, tengdapabbi kom í mat.
Okkur bumbulíus líður vel. Geggjaðar hreyfingar í krílinu, sem ég las einhverstaðar (sennilegast á www.ljosmodir.is ) að það merkir að því líður vel. Ég finn á fötunum mínum að það fer ört stækkandi (mjög ört) allt í einu á ég bara 2 buxur sem eru þægilegar um kúluna. Já það er komin kúla.....
Weird stuff mar!!

laugardagur, september 11, 2004

Laugardagur til lærdóms

Góðan daginn dúllurnar mínar. Ég er afskaplega hress og fersk eftir góðan nætursvefn. Tilbúin í slaginn vs námsbækur og verkefni. En ég kem til með að læra í Hvammi í dag. Náði í Hjölla í gær inn á Eskifjörð en þeir gátu ekki klárað svo við rennum yfir núna á eftir. Ég pakkaði bara saman lappanum og skólabókum til að grúska þar.
Hjölli var jafnvel að spá í að fara á skakið, sem væri snilld þar sem fiskbyrgðirnar okkar í kistunni fara minnkandi. Fisklaus getum við ekki verið og að kaupa fisk í búð er hreint rán, sérstaklega þegar maður kemst í ókeypis fisk með smá vinnu! Í fyrra fór Hjölli á skakið í 2 - 3 tíma og við fengum yfir 20 kg í þeirri ferð - það er nú ágætis búbót!!

föstudagur, september 10, 2004

Ein heima og eirðarlaus.

Hjölli fór til Eskifjarðar með kallinum í gærmorgun. Við Kítara látum fara vel um okkur. Hún sefur bara á meðan ég læri, man alveg hvað ég er leiðinleg þegar ég læri. Merkilegt samt hvað hún fattar að láta mig í friði þegar ég segi "læra núna" en það lærði hún í vetur. Samt þegar líða fór á eftirmiddaginn í gær þá missti ég einbeitninguna - kannski líka vegna þess að ég var búin að vera að síðan snemma um morguninn.
Komst að því í gærkveldi af hverju ég hef haldið lífi í aloa vera plöntunni minni - en auðvitað þegar ég tek mig til og elda þá brenndi ég mig. Af gamalli reynslu batt ég um sárið með plástri og bút af þessari góðu plöntu og náði að komast í veg fyrir blöðruna sem var að myndast. Og kvöldið fór í að horfa á Smallville (again - ekki erfa það við mig)
Núna er föstudagur og ég er að sækja fyrirlestra gærdagsins af netinu. Er samt í engu stuði til að læra. Ætla samt að reyna að komast í gegnum eitthvað af þessu - ekki mikið í dag þar sem ég var svo dugleg 3 sl daga. Renni svo yfir á Eskifjörð á eftir til að sækja Hjölla.
Það er eitthvert eirðarleysi í mér, kannski bara gamall föstudagsfílíngur að láta á sér bera.

miðvikudagur, september 08, 2004

Gömul blogg

Hafið þið einhvern tíman, þið sem haldið bloggsíður eða dagbækur, sest niður og gefið ykkur tíma til að lesa gömlu skrifin? Mæli með því.
Undanfarið hef ég sest niður og lesið, ásamt dagbókinni minni, og farið yfir gamla tíma, rifjað upp líðan og atburði sem ég var búin að gleyma. Því oft þá voru þetta ekki stórviðburðir eða atvik, heldur hugsanir eða líðan, en samt eitthvað sem mér fast markvert og skrifaði hjá mér.

Pappírsrusl....

Merkilegt hvað þetta rusl safnast saman! Ég tók mig til í dag og henti pappírsrusli í kílóavís úr herberginu mínu. T.d. á ég núna eina skúffu í skrifborðinu mínu nær alveg tóma!! Gömul skólaverkefni, hundraðára gamlir reikningar, enn eldri ábyrgðarnótur yfir dót sem er löngu ónýtt (frá því ég var í BT í Skeifunni - svo gamalt!!), úreltir starfssamningar o.fl. o.fl.
Þetta allt hófst vegna þess að mig vantaði samning frá Símanum því þeir eru að hösla okkur um gagnamagn! En auddað fannst hann ekki - enda minnir mig að ég hafi aldrei fengið neinn svona samning í hendurnar - á til nótuna og þar sem ég er afar pössunarsöm á allt svona þá myndi samningurinn hafa verið heftaður við svo hann glataðist ekki (smbr geymsluáráttu minni á ábyrgðarnótum) En nóg um það.

Ég lærði hellings og meir í dag. Tók fyrirlestur í C++ og vann verkefni með þeim af netinu, skemmti mér konunglega yfir að grúska og brjóta heilann yfir því "af hverju þetta virkaði ekki hjá mér" (sumt virkar núna - annað ekki, en það kemur; ég gefst ekki upp) Og allt í einu var ég búin að sitja yfir þessu í nær 3 tíma!! Er að sækja fyrirlestra dagsins í dag til að hlusta á í fyrramálið. Mér finnst þetta gaman!

Tengdapabbi kemur á eftir. Hann ætlar að gista í nótt, en svo fara þeir Hjölli yfir á Eskifjörð í fyrramálið að grafa holur..... :S Eitthvað út af sumarhúsi, byggja við annað hús.....

Bilaður hiti úti - maður fattar ekki alveg að það sé komið haust, fyrir utan rokið....

þriðjudagur, september 07, 2004

Sama og venjulega

ekkert að gerast þannig. Vakna, út með tíkina, læri, læri og reyni að skilja það sem ég er að læra.
Haustið er komið.
Er að spá í hvort ég eigi að breyta í tölvuherberginu mínu.
Elska pop up bannerinn sem fylgdi xp service pakkanum.
Er undarlega húkkt á Smallville þáttum.... ekki erfa það við mig.
Langar til að vinna milljónir í Lottó.
Elska að vera laus við yfirdráttarheimildina mína.
Langar í Ning's.
Er undarlega sólgin í spægipylsu og diet appelsín.
Hræðist 29. desember.

mánudagur, september 06, 2004

Er vöknuð....

ó mæ
ég vaknaði kl fimm í morgun - varð að fara og pissa og gat ómögulega sofnað aftur. Svo ég ákvað að skella mér í Neverwinter Nights svona í morgunsárið áður en lærdómur hæfist.
Ég held að Anna G. og Dóa séu á leið heim eða þá jafnvel komnar heim, ég vona að ferðin gangi vel, og hlakka til að heyra í þeim þegar þær eru búnar að hvíla sig. Velkomnar heim aftur !!!

sunnudagur, september 05, 2004

Frí í dag

Það er sunnudagur, og ég ætla að eiga frí frá lærdómi í dag. Enda er ég komin "öp to deit" í verkefnum og fyrirlestrum. Ég skilaði inn 1. skilaverkefninu í gær og bíð spennt eftir að fá að sjá útkomuna á því. En þau eru ekki metin til einkunnar, hann vill bara sjá að við séum að fylgjast með og læra - sem er líka mjög gott. Mér finnst vera mjög gott aðhald utan um fjarnemana hjá þeim. Ef eitthvað kemur upp á þá er strax tekið á því.
Föstudagurinn var hinn rólegasti eftir að við komum heim. Við skutluðum Gumma á Nesk um morguninn svo hann kæmist á sjó. Ég náði að læra smá á meðan Hjölli smellti upp girðingu að sunnanverðu. Núna getur Kítara verið laus í garðinum, enginn spotti. Hún er hin ánægðasta, nýtur þess að geta legið hvar sem hana lystir í garðinum, þó þetta sé ekki stór girðing þá er hún samt með meira pláss og er frjálsari. Hjölli eldaði dýrindis grísasteik um kvöldið (slurp slurp)
Laugardagurinn fór mikið í lærdóminn - til að bæta upp glataðan tíma úr vikunni. Og allt gekk vel, náði að klára skilaverkefnið, og ég var mjög ánægð með útkomuna. Allaveganna gerir litla forritið mitt það sem kennarinn bað um að það ætti að gera! Það munar öllu að vera með 2 skjái í þessu, finn það núna!! Þegar lærdómi var lokið þá ákvað ég að fá mér smá laugardagsnammi og spila Neverwinter Nights.
Já og í vikunni fórum við bumbulíus í skoðun og allt er í góðum gír. Kúlan er kannski ekki stór enn, en hún er farin að þvælast fyrir mér - úff - hvernig verður þetta?? Ég finn að sum fötin mín hafa "hlaupið" í þvotti... sérstaklega um mittið. En við erum hraust og hress, það er það sem skiptir máli. Ég er bara að pæla í hvort allar þessar hreyfingar sem ég finn séu nokkuð ávísun á að við eignumst fótboltabullu?? Það væri nú saga til næsta bæjar - tveir declared antisportistar og tölvunördar eignist fótboltabullu... he he he

fimmtudagur, september 02, 2004

Lítill lærdómur í dag

Jú jú við renndum af stað í morgun. En þegar við vorum búin að sækja manninn, og í stoppi á Reyðarfirði þá þurfti að fara til Egs, og það tók sinn tíma svo við komum ekki aftur fyrr en að verða hálf fimm. Og þá átti eftir að fara út með tíkina og fleira svo núna er klukkan allt í einu hálf sex og lærdóms stuðið alveg horfið. Finnst eins og það sé allt of seint að byrja á neinu núna - auk þess að vera mega þreytt eftir daginn, allt snattið og skutlið og allt það. Vona að ég nái að gera þeim mun meira á morgun.

Tölvur....

Tölvur hafa sjálfstæðann vilja - ég er komin með það á hreint núna!! En samningaviðræðum okkar á milli er lokið og ég hafði betur í þetta skiptið!!

Enn meiri haustrigning

Það er eins og hellt úr fötu - í gær og aftur í dag! Fór út í morgun og við tíkin komum heim gegnblautar aftur.
Við erum að leggja af stað á Neskaupstað til að sækja Gumma sem var að koma í land. Ríma konan hans og þeirra litli sonur ætla að koma með okkur.
Þegar heim verður komið, sem verður væntanlega um hádegið, þá verður lagst yfir C++, og glímt verður við fyrsta skilaverkefnið, sem gengur annars mjög vel!

miðvikudagur, september 01, 2004

Sybbin..

Svaf heldur lítið í nótt. Er sybbin núna. Ótrúlegt hvað rigningarhljóð hefur róandi og svæfandi áhrif á mig. Enda hef ég ekkert náð að gera af viti í dag.
En þar sem ég var líka svo dugleg í gær að læra C++ og náði hellings fatteríi á það þá er ég ekkert að hafa áhyggjur af framtaksleysi dagsins í dag.
Tölvan með stæla, ætlaði að defragmenta hana og þá kom hún með væl um að c drifið væri of fullt - blah - hmm og auddað voru það helv. temp fælar og norton protected bla bla - fann bara allt í einu 2 gíg sem voru lost!! Maður verður jafn happy þá og þegar maður finnur þúara í veskinu sem maður var búinn að gleyma!! Ekki halda að ég sé plásslaus - nei alls ekki - á minn 120 gíg nær lausann.... þyrfti samt að losa mig við Friends á dvd diska fljótlega..
Og það er kominn september... haustrigningin er byrjuð hérna og sennilegast stoppar hún ekkert á næstunni. Fór út með tíkina í morgun og við komum svo rennandi til baka heim að það lak af okkur (blautar í gegn)
Er að spá í að færa mig upp í lazy-boy og vera lazy.. jafnvel dotta smá yfir Stöð 2......

mánudagur, ágúst 30, 2004

Ógissslega dugleg

Búin að vera geggjað dugleg í dag. Vaknaði snemma, dáltið pirruð yfir að geta ekki sofið meir. Hef átt frekar erfitt með svefn undanfarið, en það hlýtur að lagast fljótlega. En við Kítara fórum út í góða veðrið, best að njóta þess áður en allt veður frosið svona snemma morguns. En það er farið að kólna ískyggilega.
Svo var sest við lærdóminn. Og það gekk bara ágætlega. Fékk frið og ró, las og las. Kláraði up to date í fögunum. Reyndi svo að klóra mig áfram í Borland, en ég hreinlega kann bara ekki nóg á það forrit til að finnast ég örugg. Langt síðan maður hefur verið í þeim sporum að kunna ekki eitthvað sem maður er að kljást við. En þetta kemur allt með æfingunni, hef ekki trú á öðru. Má segja að ég fíli mig eins og mér hafi verið kastað í djúpu laugina og ég sé að klóra mig að bakkanum. En fyrri reynsla hefur sýnt mér að þannig læri ég best á hlutina.
Í framhaldi af öllu þessu basli hjá mér þá komst ég að því að þægilegra myndi vera að hafa tvo skjái - annann til að hafa glósur til hliðsjónar og hinn til að vinna á, svo "voila" Hjölli reddaði öðrum 15" skjá, sem hann átti til inni hjá sér, og við smelltum honum upp. Miklu þægilegra vinnu umhverfi.
Annars var helgin róleg. Vaknað snemma, göngutúrar, tölvur og þess háttar. Engar heimsóknir og enginn í heimsókn. Hjölli smellti upp grindverki að sunnanverðu svo það hamli Kítöru í flakkinu, en hún átti það til að flækjast í hinu og þessu með spottanum og sjálfa sig.

föstudagur, ágúst 27, 2004

bakstur og skólabækur

Ég er búin að gera heiðarlega tilraun í dag til að einbeita mér að skólabókunum. En alltaf er eitthvað sem dregur athyglina frá. Svo einnig vantar inn á netið hljóðfyrirlestrana svo mér finnst ég bara vera með part af þeim gögnum sem ég vildi hafa til að læra almennilega. En kannski er ég bara að nota þetta sem afsökun til að gera þetta ekki akkúrat núna.
T.d. bakaði ég helling og glás í dag. Bærinn var algjörlega "möns" laus og bakaði ég súkkulaðibitakökur og skúffukökur. Reyndar ætlaði ég bara að baka eina skúffuköku en eitthvað ruglaðist ég í ríminu, og bakaði eins og ég ætlaði að baka 2 stk. Og misreiknaði stærð formanna og þær urðu 3!!! En fyrri reynsla sýnir að þær skemmast ekki. Verða settar í frost og þá geymast þær lengi. Einnig bakaði ég tvær uppskriftir af súkkulaðibitakökum þar sem sumir vilja hafa þær með rúsínum en aðrir ekki. Og mér finnst ekki taka því að baka hálfa með rúsínum þar sem þær hverfa mjög fljótt. En kosturinn er að þá þarf ég ekki að brasa í þessu næstu mánuði!!
Kítöru finnt alltaf svo gaman þegar verið er að baka. Henni finnst alltaf svo agalega góð lykt úr skúffunni sem geymir allt bökunardótið (súkkulaði, kakó, rúsínur, kókosmjöl og þess háttar) og þegar ég fer af stað og tíni úr skúffunni þá verður hún alltaf sú ánægðasta og sniglast í kringum mig í von um að fá smakk. þetta er algjör serímónía fyrir hana sem hún ólst upp við í vetur. Rauða svuntan sett upp og þá er gaman:)
Annars er lítið að frétta héðan. Hjölli fer reglulega upp og tínir út af hæðinni. Sólin skín, hundurinn sefur og Stargate Atlantis er hin frábærasta sería! Stargate SG-1 er enn í uppáhaldi en við verðum að bíða eftir að þættirnir detti inn á netið þar sem það er verið að sýna þá úti. Næsti þáttur er sýnur úti í kvöld svo kannski (vonandi) dettur hann inn um helgina :o)

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Afmælisbarn dagsins:

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Vilborg
hún á afmæli í dag!!!!

Til hamingju með daginn elsku Vilborg mín!

Knús og kossar frá Fáskrúðsfirði!!!

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Ahhhh komin heim!

Jamm ég er komin heim í kyrrðina. Ferðin gekk vel, bæði norður til Mývó og svo austur í gær. Ég gisti hjá mömmu og pabba á leiðinni, nenni ekki að keyra alla leið á einum degi.
Langar til að þakka Kalla og Raggý fyrir að leyfa mér að gista hjá sér - takk kærlega fyrir mig elsku vinir!
Það er svooo gott að vera komin heim þið trúið því ekki. Er alveg mega þreytt eftir helgina, en þetta var fín helgi, skemmtileg og fróðleg. Hlakka til að byrja í skólanum og takast á við verkefnin. Er einmitt að logga mig inn og sækja glærur og fyrirlestra. Hefst svo lesturinn!
Það var vel tekið á móti mér við heimkomuna. Kítara varð ekkert smá glöð að fá mig heim, dansaði af kæti um allt húsið og sá varla af mér þessi elska.
Hjölli búinn að vera geggjað duglegur á meðan ég var ekki heima. Setti upp skjólvegg í garðinum og reif helling út af hæð 2. Svo núna eigum við þennann fína skjólvegg við sólpallinn okkar, og auddað kom rigning í dag svo ég get ekki sest út með tebollann minn og prufað! En þetta er snilld!!!
Það er gott að koma heim!!

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Löng en skemmtileg helgi

Jæja búin í skólanum í dag. Komin niður á Victor til að leika mér á netinu. Ætlaði í heimsókn til afa og ömmu en þau eru ekki heima í augnablikinu.
Skemmti mér vel í skólanum. Leggst vel í mig þetta nám. Er núna að kanna innri vef skólans og verkefnin sem ég var að gera í dag eru þar inni og ég fæ access að þeim í gegnum netið auk tölvupóstsins. Mér finnst það snilld. Ekkert bras við að senda og sækja, bara loggast inn og næ í draslið.
Ég fékk aðra bókina sem mig vantaði á föstudaginn. Fékk hana á 3þ þegar bókasölur stúdenta voru að selja þær á 5-6þ tel mig vel sloppna þar!
Hitti Jóhönnu mína á Mílanó, sátum þar og kjöftuðum í nokkra klst. Alltaf notalegt að ná að sitja og spjalla í frið og ró.
Náði í Önnu G og Dóu á flugvöllinn seinna um kvöldið, en þær eru að fara til Danmerkur á morgun. Verður vonandi gaman hjá þeim.
Vaknaði snemma á laugardaginn og hóf minn fyrsta skóladag! Við erum bara tvö að austan. Hinn er frá Breiðdalsvík og er búfræðingur. Við getum þá unnið eitthvað saman væntanlega í verkefnum í vetur. Annars eru flestir frá R-vík. Þegar ég var búin á laugardaginn sá ég allt í 1 og 0 - vorum í binary allan daginn, og heilinn minn getur bara tekið við visst miklu af svona hugsunum og hugtökum á einum degi og var ég alveg búin á því. Lagði mig þegar ég kom á Grundarstíginn. Ákvað líka að hreyfa ekki bílinn þar sem ég fékk bílastæði á Grundarstígnum sjálfum. En þegar menningarnótt er þá er afar hæpið að fá stæði svo nálægt húsinu! Enda var allt gjörsamlega pakkað allstaðar strax þá. Það semst útilokaði það að ég færi og hitti Jóhönnu heima hjá henni (sniff sniff). Fór þess í stað og hitti Önnu G. og Dóu. Ragga slóst í hópinn og horfðum við á tónleikana á Miðbakka og svo á flugeldasýninguna á eftir. Ég fór heim eftir það. Þreytt og alls ekki í gír fyrir svona mikið af fólki. Hef aldrei séð svona mikið af fólki á einum stað!
Vaknaði hress í morgun og skveraði mig í sund. C++ var í dag, og það kom mér á óvart að allt bras í blogg templates er alls ekki svo heimskulegt! Margt þar sem ég hef lært sem kom að notum!
Ég semst er búin að hafa það gott yfir helgina, en mikið er mig farið að langa til að komast heim!

föstudagur, ágúst 20, 2004

Góðan daginn Reykjavík!

Var komin á fætur og í sund snemma - sleikti sólina í pottinum og naut mín. Er að reyna að grafa upp bækur fyrir skólann, reyna að finna þær sem ódýrastar. Enda sennilegast með að fara á bókasöluna hjá þeim sjálfum þar sem þeir vilja ekki að maður noti eldri bækur en útgáfu 4. Og sumar eru held ég alveg nýjar svo það er erfitt að fá þær á skiptibókarmörkuðum. En það kemur allt í ljós. Á hellings af skólabókum síðan í fyrra sem ég get farið með í bókabúðirnar en fæ bara innleggsnótu í staðinn. En maður getur alltaf nýtt þær!!!
Núna liggur leiðin í hádegismat hjá afa og ömmu, hvað tekur við eftir það er óráðið.
En ekki má gleyma afmælissöng dagsins:
Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag
hún á afmæli hún Jóhanna
hún á afmæli í dag!
Til hamingju með daginn elsku Jóhanna mín!!
En í gær var góður dagur, eftir að ég kom í bæinn þá fór ég í mat til Röggu vinkonu, þaðan með henni og Björk í skonsur til foreldra Röggu. Alltaf gaman að hitta þær vinkonur, Röggu og Björk, afar hressar og skemmtilegar að vanda!

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Enn og aftur í Reykjavíkinni

Hæ hæ essskurnar mínar. Hvað er það fyrsta sem maður gerir þegar maður kemur í bæinn þegar maður er búinn að vera netlaus í nokkra daga?? Jú maður fer og finnur næsta hot spot stað, fær sér súkkulaði kaffi og loggar sig inn!!!
En ég er búin að vera í góðu yfirlæti í foreldrahúsum.
Sakna Hjölla og Kítöru mikið.
En þetta hefur á mína daga drifið síðan síðast:
Mývatnssveit - mánudagur, 16. ágúst
Jamm þá er ég komin í sveitasæluna í Mývó. Keyrði alla leiðina í í gær í sól og steikjandi hita, ekki ský á himni og geggjaður hiti.
Í dag fórum við mamma svo til A-eyrar. Hún kom með mér í sónar þar sem Hjölli gat ekki komið með mér. Það gekk allt mjög vel, allt í góðum gír, mjög gott mál. Búðuðum aðeins, alltaf gaman að búða aðeins á A-eyri. Nú er semst bara afslöppun fram á fimmtudag.
Mývatnssveit – þriðjudagur, 17. ágúst
Dagurinn í dag var frábær! Geggjað veður! Fór í sund í morgun, slappaði af í pottunum og skellti mér á sólpall og rak nefið upp í sólina, og viti menn ég er aðeins brúnni en ég var í gær!! Herkúles að njóta þess að hafa mig eina, engin Kítara til að stjórnast í okkur, frekjast á milli. Við mamma og Herkúles fórum á rúntinn í sveitinni, fengum okkur góðan labbó í Höfða. Rosalega er sá staður alltaf jafn fallegur, en verst hve mikið af gróðri er sviðinn þar sem sama og engin rigning hefur komið í sumar! Og auðvitað var ís í Selinu, það er alltaf skylduverk – ís sem ekki er hægt að borða úti því þá væri hann allur út í flugu.
Mývatnssveit – miðvikudagur, 18. ágúst
Og aftur var sólin á sínum stað í morgun. Ég var mætt í laugina kl tíu, og lá á pallil í klukkutíma (með viðeigandi og reglubundnum ferðum í laugina og pottinn) Þetta var alveg yndislegt. Eftir sund þá sat ég úti á palli eins fáklædd og ég mögulega gat (með tilliti til nágranna) og leysti krossgátur (og las Andrés Önd) Við mamma fórum svo til Húsavíkur eftir hádegið, tilgangur ferðarinnar var Hvalasafnið á Húsavík. Þetta er mikið og flott safn. Mæli með að allir kíki þangað (ef svo ótrúlega vildi til að þið ættuð leið þangað) Tók reyndar fullt af myndum. Þeir eru með fullt af beinagrindum, óþrjótandi upplýsingar um hvalina, uppruna og lifnaðarhætti, veiðar á þeim til forna og í dag. Tæki og tól, sýni og myndir. Mjög skemmtilegt hjá þeim.
Jamm svona var það og svo var brunað í bæinn í dag (fimmtudag). Ætla að nýta daginn á morgun í snatt og stúss.
Og ekki má gleyma að Jóhanna Logadóttir á afmæli á morgun!!!

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Ein á ferð....

jamm þá er það komið á hreint. Þar sem tengdapabbi getur ekki passað fyrir okkur næstu helgi þá kemst Hjölli ekki með (sniff sniff) svo ferðaplan er svo hljóðandi:
  • sunnudagur keyra í Mývó
  • mánudagur sónar á Akureyri
  • fimmtudagur keyra suður úr Mývó
  • mánudagur keyra norður aftur

Það verður svo að ráðast hvort ég meiki að keyra alla leið heim á mánudeginum eða hvort ég gisti í Mývó og fari heim á þriðjudag. En þökk sé hot spots OgVodafone út um allt þá kemst maður auðveldlega á netið til að hafa samband :o)

Ég á eftir að tala við Kalla og Raggý en ég býst við að gista þar á meðan ég er í bænum.

'till later... hafið það gott dúllurnar mínar.

laugardagur, ágúst 14, 2004

Þrif, tölva og nammi...

Tók daginn snemma. Vaknaði kl sjö og gat ómögulega sofið lengur. Dreif mig á lappir og fór út með tíkina, ákvað svo að nýta góða veðrið og þvo bílinn almennilega. Sápuþreyf hann, rainexaði og þreyf hann að innan í leiðinni. Nema varð að geyma ryksugun þar til í nammiferðinni því ekki er hægt að ryksuga með hund í bílnum (þó hún sé í búrinu sínu þá gólar hún alveg hryllilega á ryksugur).
Tók við að spila NWN og kjafta á msn. Og um eitt fór ég og náði mér í tölvusnakk og já ryksugaði bílinn.
Er að byrja að stressast út af skólanum. Næsta helgi úff mar, já og þarf að leggja í hann sennilegast á morgun. Verð í heila viku í burtu frá manni og hundi. Ég hef aldrei farið svona lengi frá hundinum. Jóhanna segir að hún verði ok, en það er ekki málið - heldur verð ég ok án hennar?? Mikið rosalega verður maður háður litla skugganum sínum!!
Það er enginn ferðafílíngur í mér. Fékk góðan doze af ferðafullnægingu á roadtrippinu okkar um daginn. Ég er bara svo heimakær hérna, í greninu mínu að það hálfa. Tölva, TV og te á sínum stað (the three T's)
Kannski ég ætti að fara og njóta laugardagsins og vera heiladauð fyrir framan imbann, myndi sennilegast sofna þar sem maður var vaknaður svo snemma. Maður ætti kannski ekki að gera það opinbert þegar maður vaknar svona snemma á laugardegi að ástæðulausu (þe engin vinna né lífsnauðsynlegur fundur)

föstudagur, ágúst 13, 2004

Líður að skóla..

Jæja þá er ég búin að fá dagskrána fyrir næstu helgi, hún hljóðar svona:
21. ágúst
  • Kynning fyrir nýja fjarnema frá 9 - 11
  • Tölvuhögun, kl. 11 - 16

22. ágúst

  • Forritun, kl. 10 – 16

Við erum ekki alveg búin að ákveða hvernig þetta allt saman verður. Ég þarf að mæta í sónar á Akureyri á mánudaginn 16. ágúst. Og við erum ekkert allt of spennt yfir að taka tíkina í svona langt ferðalag aftur, sérstaklega til R-víkur. Hún var ekkert að fíla sig neitt rosalega vel. Svo kannski verð ég bara ein á ferð. Ef svo verður þá keyri ég til Mývó á sunnudag, gisti þar, skutlast til A-eyrar á mánudeginum og verð svo áfram í Mývó fram að helgi. En eins og ég segi þá er þetta ekki alveg komið á hreint enn.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Engin hafgola....

Í dag er heitt - of heitt til að gera nokkuð! Við drifum okkur út fyrir hádegi til að mála, nýta sólina og hlýjuna áður en hafgolan kæmi og það væri of kalt og hvasst til að gera nokkuð. En svo stóðum við í svitabaði við að mála og það hélt bara áfram að hlýna. Þetta var nú býsna næs samt. Ég tók grindverkið og Hjölli prílaði upp á þak og málaði efri hluta þaksins þe þá hlið sem snýr að fjalli/veginum. Eftir það rak ég nefið reglulega út á sólpall, en ég hafði ekki dug í að sitja í mollunni lengi í hvert sinn. Tíkin alveg að grillast og fann sér alltaf skugga til að mása í.
Við tókum rúntinn hinum megin í fjörðinn, aðeins til að kæla hana, fórum á nýjan stað. Þar komst hún í sjó og læk til að svamla í og var hin ánægðasta. Við gæddum okkur á ís á meðan. Ég reyndi núna að liggja úti í garði og ætlaði að ráða eina krossgátu en heilinn var of steiktur til að hugsa.
Þetta er með heitustu dögum sem komið hefur þessi 2 sumur sem við höfum búið hérna!

Geggjað veður

Góðan daginn. Mér sýnist í dag verði eins veður og í gær. Alveg steikjandi hiti og logn. Ég kvarta ekki yfir því. Bíð eftir að sólin færist yfir á sólpallinn svo ég geti farið út og dundað mér með bók eða krossgátur í smá tíma.
Síðustu dagar hafa verið rólegir. Skruppum yfir á Eskifjörð á mánudaginn. Heitt. En þar sem hitaskúr kom þegar heim var komið þá dundaði ég mér í Neverwinter Nights og skemmti mér mjög vel.
Í gær var svakalegt veður. Fórum með tíkina í sund í ósnum, gæddum okkur á sjeik á meðan í sólinni. Nutum semst veðursins til fullnustu. Tókum multiplayer á Neverwinter - var geggjað gaman, sátum í sitthvoru tölvuherberginu og börðumst við vonda kalla sem reyna að leggja heiminn undir sig.
Og veðrið hreinlega bauð uppá grillmat. Hjölli grillaði dýrindis svínasneið, sem var meira en nóg í matinn handa okkur tveim, og ég bakaði eftirrétt. Mega næs.
Nú styttist í suðurför aftur. Leggjum í hann á sunnudaginn sennilegast því ég verð að vera á Akureyri á mánudaginn. Og skólasetningin er á fimmtudaginn, og þá um helgina er fyrsta staðbundna vinnulotan. Svo opnar sennilegast skiptibókarmarkaðurinn á mánudeginum eftir það. Svo þetta verður vikureisa hjá okkur. En það er bara gaman :o)

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Heimsókn úr Mývó!!

Ahh þetta var nú notalegt í dag. Pabbi hringir úr Jökuldalnum og segir þau vera á leiðinni í heimsókn. Það var nú ekkert obbosslegt drasl hjá okkur en ég fór samt sem sveipur um húsið, minnti sennilegast á Mr. Muscle þvottaefnisauglýsinguna....
Hef aldrei séð tíkina taka eins vel á móti neinum og þeim. Þvílík gleði og hamingja hjá henni við að fá þau í heimsókn, sérstaklega Herkúles.
Rosalega gott veður og við tókum rúnt yfir í gamla franska spítalann sem stendur hinum megin í firðinum. Hef aldrei farið að skoða hann, og ef þessir veggir gætu talað þá myndu þeir segja frá mörgum sögum. Þetta er orðið hrörlegt og það er ekki ráðlegt að fara upp alla stigana þar, og sumstaðar heldur ekki á neðri hæðinni, maður gæti hreinlega poppað niður úr. Minnir einna helst á gömlu draugahúsin sem maður sér í bíómyndunum. Hjölli eldaði svo dýrindis pottrétt og var mikið etið og spjallað.
Það var rosalega gott að fá þau í heimsókn, og dagurinn yndislegur.

laugardagur, ágúst 07, 2004

Aflsöppun í dag

Tíkin leyfði mér að sofa út í dag. Hún var ekki komin á hurðina kl sjö, og svo aftur kl átta heldur fór ég framúr kl níu, útsofin og hissa á rólegheitunum. Lallar hún þá framúr stofunni, með stírurnar í augunum og eyrun uppábrett, svo mygluð að það hálfa...

Við kláruðum okkar venjulegu morgunverk; sturta, labbó, frisbí, synda í ósnum, morgunmat og þess háttar. Hjölli prílaði upp á þak og byrjaði að mála aftur.
Við fórum bara til Reyðarfjarðar í gær, nenntum ekki lengra, auk þess höfðum við þannig séð ekkert að gera lengra. En okkur vantaði menju á þakið svo við urðum að fara í Byko.
Ég réðst á húsið að innan, bretti upp ermarnar og skúraði og bónaði allt. Voða fínt fínt hjá mér. Við náðum í búðina fyrir tvö, til að kaupa nammi af nammibarnum með 50% afslætti. Mér líkar það obbosslega vel.
Svo er ég búin að sitja hérna, og leika mér í afslappelsi í Neverwinter Nights leik. Tíkin sefur, og Hjölli sefur sennilegast yfir einhverjum þætti sem hann var að horfa á í tölvunni hérna niðri. Munur að vera með hægindarstól í tölvuherberginu og geta látið fara vel um sig. Ég er með sófa, og það er yndislegt að liggja þar og slaka á með bók eða horfa á eitthvað skemmtilegt.
Svo dagurinn í dag er sannkallaður afslöppunar dagur.

Hmmmm....

Eru laugardagar ekki nammidagar??

föstudagur, ágúst 06, 2004

Ekki mikið að gerast

það er allt í rólegheitunum þessa dagana. Hjölli skellti niður pallaefninu sem loksins kom í leitirnar um daginn, svo núna erum við með smá sætan sólpall í stað gamallar holóttar stéttar sunnan við húsið - mikið næs. Hann hefur líka verið að æfa loftfimleikana með að hanga uppi á þaki og mála. Eða ég vona að hann hangi í einhverju því þakið er geggjað bratt og hátt fall ef hann skildi detta. Og húsið hefur breyst í svip við að fá nýja ferska málningu.
Sól og blíða undanfarna daga, og hefur bæst aðeins á freknurnar á enninu á mér.
Ég er að byrja á nýjum leik sem heitir Dark Age of Camelot. Þetta er online only leikur, og gegnur ok svona í byrjun. þó það sé alltaf hálf leiðinlegt að byrja því maður er svo aumur kall í startið. En leikurinn lofar góðu og ætla ég að nýta mér vel þennan fría fyrsta mánuð sem fylgir leiknum.
Svo er jafnvel á plani að fara til Egilsstaða í dag að versla, jafnvel kíkja í sund, en það er samt ekkert ákveðið enn.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Og afmælisbarnið....


Svona lítur svo prinsessan út í dag. Ég tók nokkrar af henni áðan en mér finnst þessi skemmtileg. Hún er tekin um helgina í Kjarnaskógi á Akureyri, og er sú stutta að bíða eftir því að frisbí sé kastað. Þetta var alveg frábær dagur.

Kítara á "afmæli" í dag!!!

í dag er ár síðan Kítara kom á heimilið! Þar sem hennar fæðingardagur er óvitaður þá kalla ég þetta afmælisdag hennar!! En hún er uþb eins árs og mánaðargömul núna. Ótrúlegt hvað þetta ár hefur verið fljótt að líða og enn fyndnara þegar ég skoða myndir af henni frá þeim degi sem hún kom og í dag. Hún er svo stór núna miðað við litla krílið sem hún var þá!

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Komin heim :o)

Jæja - þá erum við komin heim í fjörðinn. Við stoppuðum í Mývó í hádeginu. Aðeins að hlaða batteríin, með lúxus hádegisverði hjá foreldrum mínum. Stoppuðum á Egilsstöðum í Bónus þar sem vitað var að ísskápurinn var algjörlega tómur heima fyrir.
Tíkin hæst ánægð með þetta, linnti ekki látum þegar við vorum kominn inn, heldur heimtaði mat í dallinn sem er alltaf niðri við tölvuherbergið mitt (sem hún annars borðar bara úr á morgnanna) át helling, og er svo löggst og stein sefur núna í sófanum í tölvuherberginu mínu. Svona vill hún hafa þetta greinilega. Hún horaðist á ferðalaginu greyið. Þegar við vorum í Mývó áðan þá réðst hún á dallinn hans Herkúlesar og borðaði fullt. Átti greinilega erfitt með að borða á ferðalaginu, þó var alltaf matur til handa henni á Akureyri. Hún stóð sig eins og hetja á ferðalaginu. Svo duleg í búrinu, að bíða og vera á ferð lengi.
En ég er sammála henni, það er afskaplega gott að vera komin heim. Ferðalagið var mjög fínt og skemmtilegt í alla staði, og það var frábært að hitta fólk sem maður annars sér ekki það oft. Í gær, mánudag, vorum við bara róleg heima fyrir. Las, horfði á tv, fór í göngutúra með tíkina og svaf meira. Algjört afslappelsi.

Ég gekk frá skólagjöldunum í HR - vei!! Svo nú er bara að bíða eftir að komast suður aftur til að hefja námið! hlakka geggjað til!!!