sunnudagur, ágúst 24, 2008

Yndislegt líf

Eftir góða aflslappandi helgi líður mér frábærlega vel.  Veit að sonur minn átti góða helgi lika og hlakka ég hrikalega til að sjá hann á morgun. 

Stundum hugsa ég að ég sé að láta hann of mikið frá mér en á móti þarf ég líka alveg á því að halda.  Ég er alltaf að vinna þessa laugardaga sem hann er hjá pabba sínum og með þessu móti fæ ég einn dag sem ég get sofið lengur, farið í sturtu og fengið mér kaffi bollann.  Átt smá stund fyrir mig.  Með því móti kem ég endurnærð, hressari og orkumeiri inn í mömmustarfið en ég hef verið ella. 

Lífið er alveg hrein snilld þessa dagana, mér líður svo vel, Gabríel líður svo vel hann er svo kátur, ég er svo heppin að eiga svona yndislegan son, og þakka Guði fyrir heilbrigði hans og hraustleika.

DSC02821

 

laugardagur, ágúst 23, 2008

Í vinnunni

jámm það er laugardagur og ég er í vinnunni.. Það er ekkert að gera -vona að það glæðist eitthvað núna síðasta klukkutímann.  En sólin skín og Ísland er í úrslitum í handbolta og líkurnar eru ekki mér í hag að það verði milljóna sala í dag. 

Gabríel er hjá pabba sínum og er mér best vitanlega og öruggum heimildum kátur og hress. 

Síðustu helgi var fjölskyldu dagur hjá Akureyrardeild EJS og var farið út í sveit þar sem einn okkar býr og var þar hoppikastali og hestar. Grill og ratleikur. Gabríel var hæstánægður með allt saman - og ekki skemmdi fyrir að hann fékk verðlaunapening fyrir að vinna ratleikinn.

Svo um kvöldið var húllumhæ hjá okkur fullorðna fólkinu þegar grísirnir voru farnir í pass.  Hrikalega gaman líka. 

Það er nákvæmlega ekkert að frétta. Ég er ánægð með lífið eins og það er í dag.  Sátt við þessa hillu sem ég stödd á í dag en samt veit að það er ekki endanleg hilla.  Fór í Lundaskóla um daginn með tölvur og hugsaði með mér "flottur skóli, þetta er skólinn hans Gabríels ef við búum í Hjallalundinum áfram næstu árin.... " hvað veit ég um hvar ég verð eftir 3 ár? en tilhugsunin var bara alls ekkert slæm, var frekar góð ef eitthvað er.  Stapílt og öruggt líf.  Við tvö - kannski einhver annar líka en ég þekki hann ekki ennþá... málið er að mér liggur ekkert á !  

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Daglegt brauð

það er ekki mikið um að vera þessa dagana.  Vinna og knúsa drenginn minn þegar ég er ekki að vinna.  Finn ég er ekki alveg búin að finna hilluna mína en þessi hilla sem ég notast við núna dugar í augnablikinu og mér líður vel með núverandi aðstöðu okkar.  

Dóa tók mig á eintal úti í Amsterdam og fórum yfir stöðu mála.  Hún kom með svo mikið af góðum staðreyndum og benti á marga hluti sem ég hafði ekki tekið eftir hvorki fyrr(þá) eða núna. Hluti sem vinkonur mínar sáu en ég vildi ekki sjá.  Sé það svo kristal núna að það er scary hvað ég var blind. En ekki lengur.  

Já merkifréttir dagsins í gær - ég fékk mér nýja ecco skó... kvenkyns sandala (ha ha h a) ! - alveg eins og ég átti því hinir sem ég er búin að eiga í 4 ár gáfu upp öndina í gær... ég grét þá skal ég segja ykkur.  Er búin að þramma á þeim út um allt, lönd og borgir í öllum veðrum og vindum... Ég spurði hvort það borgaði sig að gera við þá og þegar hann heyrði aldurinn þá sagði hann hreint nei.  Skoðaði þá og vildi helst henda þeim sjálfur í tunnuna (skósölumaðurinn)

Annars er bara allt í góðu.  Sonur kátur - gaman í skólanum - varla hefur tíma til að kyssa mömmsuna sína bless núna.  Mér finnst það heldur betra að missa af kossi en að heyra grátur þegar ég fer.  Þeir eru góðir saman hann og vinir hans.  Hugsa að þeir láti leikskólakennarana alveg vinna fyrir þessum litlu launum sem þær fá, enda að mínu mati eiga þær betra skilið þessar elskur!

Knús til ykkar

 

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Ný vika framundan :o)

og ég tek henni bara með brosi á vör.  Átti góða helgi og fékk hamingjusaman son heim í dag.

Mér finnst alveg ótrúlegt hvernig hlutirnir hafa þróast.  Ég er svo fegin að við fullorðna fólkið sem stöndum í kringum Gabríel náum að tala saman og vinna saman að hagsmunum Gabríels.  Hann er svo kátur og sáttur að það er frábært.  það munar svo miklu að fólk geti talað saman, geti rætt um hlutina, unnið saman og ekki verið með smámunasemi eða baknag.  Maður er að heyra allt of mikið af þess háttar sögum og atburðum sem barnið lendir hreinlega á milli.  Baknag og nöldur í garð hvors annars og jafn vel svo barnið heyri til.  Mér hefur alltaf þótt það hrikalegt að heyra frá þannig málum. 

Jú það er alltaf erfitt fyrst á eftir skilnaði. Og jú við áttum okkar rimmur líka en commonn - við náðum þó að halda því gjörsamlega frá barninu okkar.  Við erum fullorðið fólk! Og það sem fer oft í mínar fínustu líka er þegar ég heyri fólk segja "nei barnið mitt fær sko ekki að fara með þetta og þetta heim til hins foreldris..." og oftar en ekki kemur í sömu setningu "og ég vil ekki sjá neitt frá honum/henni svo  barnið fær ekki að koma með jólagjafirnar/afmælisgjafirnar heim" - hvað er að fólki??? þarf biturð og gremja að ná svona yfir barnið og marka hamingju þess og gleði með að deila því sem því þykir fallegt og vænt um með þeim sem því þykir vænst um??

Dæmi um son minn - hann fær dót í gjöf, hann tekur iðulega ástfóstri við dótið - sefur með það og fer með það allra sinna ferða.  Mér dytti aldrei í hug að meina barninu að taka þetta dót með sér til pabba síns.  Hann talar um "sýna pabba..." og gleðin skín úr stóru bláu augunum!  Nú ef það gleymist þar þá gleymist það - það er alltaf hægt að sækja það síðar! Sama þegar hann fær eitthvað dót hjá pabba sínum - hann fær að koma með það hingað heim - þau eru ekki að banna barninu að sýna mömmsunni sinni nýja dótið. 

Börnin okkar eru okkur allt og það er okkar að tryggja að þau séu hamingjusöm og kát.  Þegar barnið á í hlut verður fólk að setja til hliðar gremju, sárindi og reiði, og sérstaklega að rífast ekki eða úthúða hvort öðru svo barnið heyri.  Börnin eiga rétt á að skapa sínar eigin skoðanir á foreldrum sínum, en ekki fá mataðar skoðanir frá öðrum.

Ég er bara svo hrikalega fegin að hlutirnir eru að ganga svona vel hjá okkur.  Við erum jú öll að ala upp strákinn :o)  Þau meira að segja tóku það ekki í mál að ég færi að ráða mér barnapíu í vetur.  Ég er jú að vinna alltaf tvo daga í viku til 18:00 og skólinn lokar 17:00.  Hulda sækir hann í skólann þessa tvo daga í viku.  Þetta er náttla bara frábært! Hann að sjálfsögðu fílar það að hitta þau oftar en bara aðra hverja helgi.  Hvaða barni fyndist það ekki?? Svo það er win win situation! 

En nóg um þetta efni.  Helgin var snilld.  Lá í vídeói allan laugardaginn með dotti inni á milli.  Fór svo á konukvöld í Kiðagili á laugardag og hef sjaldan hlegið eins mikið.  Það var alveg magnað og maturinn var hrein snilld! Var á bílnum og kom heim um tvö í nótt.  Lá svo í leti í dag - fram að hádegi.  Anna mín kom og við fengum okkur hádegisverð, kíktum á torgið og fórum svo í bíó - ég átti alveg eftir að sjá Mamma Mia. Vá hvað ég hló mikið og vá hvað þessi mynd er mikið æði!!

Og svo kom sonur minn fallegi heim eftir greinilega vel heppnaða helgi hjá pabba sínum.  Kátur og sáttur.  - svona á lífið að vera :o)

föstudagur, ágúst 08, 2008

Hann á afmæli í dag !!!

Ragga_Fergal

Hann á afmæli í dag elsku Fergal !!!

Til hamingju með daginn dúllan mín!! Hér er hann með fallegu vinkonu minni henni Röggu, mynd sem ég tók af þeim í heimsókn minni til þeirra í Rotterdam.

Knús frá Íslandi!!

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Fyrsta vikan eftir sumarfrí

jámm þetta er stutt en svo óendanlega löng vika.  Það er bara fimmtudagur ennþá og mér finnst þetta vera búið að vera lengi að líða. 

Við sonur áttum góðan dag siðasta daginn í sumarfríi.  Við stilltum klukkur á sjö til að koma okkur aðeins á rétt ról, dóluðum heima, lékum okkur í kubbum, íbúðin undirlögð af dóti þar sem hann varð að finna hvernn einn og einasta bíl. 

kanilsnudarVið bökuðum kanilsnúða - það var hrikalega gaman.  Hann fékk að dreifa sykrinum á og skera í snúða og þeir eru svo flottir hjá honum!! við vorum sammála um að við vildum hafa þá í miðlungstærð og mjúka - og þannig urðu þeir.  Varð heldur mikið svo ég mætti í vinnu með box fullt af ilmandi mjúkum kanilsnúðum og voru þeir etnir upp til agna með lofi. Gaman að þessu :)

Næsta helgi er síðasta helgin sem lokað er á laugardegi. Og er þetta pabba helgi svo ég verð ein heima.  Helgina eftir það hefst opnun og verður alltaf opið á laugardögum í vetur eins og sl vetur.  Og í næstu viku verður opið til 18:00 aftur og verður það með sama hætti og í sl vetur.  En í ár verður breyting hjá okkur þar sem pabbi hans og Hulda ætla að sækja hann 2x í skólann í viku þá daga sem ég er að vinna til 18:00.  Þetta gerir það að verkum að ég þarf ekki að finna manneskju til að sækja hann fyrir mig.  Þórey er yndisleg og Gabríel líkaði vel við hana en nú er hún á 3 ári í MA og það verður alveg nóg að gera hjá henni blessaðri.  Við gerðum þetta svona síðustu vikurnar fyrir sumarfrí og virkaði fínt :) 

Jamm ég skoða reglulega myndirnar að utan og brosi.  Er búin að finna myndir sem ég ætla að prenta út í A4 ljósmyndagæðum og setja í rama og uppá vegg.  Trúið mér kodak mómentin voru þokkalega nokkur í Hollandi.

Hvað skal gera næstu helgi er óvitað, en það verður eitthvað skemmtilegt þar sem það er svo gaman að vera til!!!

mánudagur, ágúst 04, 2008

Holland MYNDIR

DSC03555

hæ hæ - ég er ógó dugleg - það eru komnar myndir á flikkrið mitt:

 Holland 2008.

En þetta eru bara brotabrot af myndnunum.  Ég tók 429 myndir... Svo ef einhvern langar að sjá meira þá er bara að kíkja í kaffi :o)

Við sonur erum heima núna.  Komum heim í gær.  Ákvað að taka einn dag heima þar sem vaknað yrði klukkan sjö til að venja við.  Og það var ekki auðvelt.  Svo við verðum vonandi fyrr sofnuð í kvöld :)

Ótrúlegt að sumarfríið sé búið - 5 vikur búnar.  En ég er svo ánægð með þessar 5 vikur.  Þetta var snilld frá byrjun til enda.  Útilegur, skoðanaferðir, afslöppun, sveitin, vatnið, fólkið, Holland.

Gaman að vera til !!!

sunnudagur, ágúst 03, 2008

Holland FERÐASAGAN!

DSC03198 Jamm þá er maður kominn heim.  Eftir hreinlega yndislega viku hjá yndislegu fólki. 

Byrjaði á að fara til Amsterdam til Dóu minnar á fimmtudeginum.  Lenti síðla kvölds og fórum við heim til hennar og kjöftuðum yfir köldum Hertog Inn. 

Daginn eftir var svo farið í labbitúr um Amsterdam.  Og það er snilld að labba um þessa fallegu borg.  Hún er ekki stór svo Dóa tók mig um hana nánast alla.   Hún labbaði með mig um rauða hverfið, um kína hverfið, um túrstahverfin og göturnar og auk þess sem hún tók mig staði sem túristar fara ekki og þannig fær maður flotta yfirsýn á þetta allt saman.  Og ekki má gleyma að við príluðum upp í klukkuturn (með leiðsögn) og þar sást yfir allt!!!

Og auðvitað var stoppað í bjórsmakk reglulega á gönguleiðinni.  Enduðum daginn á vinnustaðinum hennar og hittum þar vinkonu hennar Hörpu sem reyndist vera hina skemmtilegasta - ég segi það bara - haha ha !

Það var heldur þunnt í mér daginn eftir þegar ég skoppaðist með lest yfir til Rotterdam.  Raggan mín og Fergal tóku þar á móti mér.  Meiri hiti og meiri raki þar en í Amsterdam daginn áður. 

Við Ragga fórum á Zomercarnaval í downtown Rotterdam. Töldum um 50 vörubíla með tónlist og dansandi flokkum á eftir.  Ótrúlega flottir búningar og dansatriði.  Tók hellings af myndum og þetta var rosalega gaman að fylgjast með þessu.  Og þar sem skrúðgangan endaði voru fjöldi tjalda með heitum mat til sölu sem var ættaður víðsvegar um heiminn.

Á sunnudeginum fórum við í yndislegan garð með grill og nesti.  Rosalega heitt og sólin skein svo það var hvergi skjól.  Þá er einmitt gott að fara þarna og gera ekki neitt.  Það er vatn við garðinn, buslulaug fyrir krakkana með ýmsum leiktækjum.  Þarna voru snekkjur á sveimi á vatninu og hinum megin gat maður séð myllur og enn stærri báta.  Þarna var dásamlegt að vera.  Mikið af fólki greinilega nýtir þennan garð á sama hátt og þau Ragga og Fergal gera nánast við hvert tækifæri - enda skil ég þau afskaplega vel.  Þetta er í göngufæri við þau - smá spotti en þau eru alltaf á hjólum.

Mánudag fórum við í göngu um Rotterdam aftur.  Og það var ótrúlegt að sjá muninn á borginni frá laugardeginum.  Ekkert af fólki nánast - þarna eru engir túrisitar - og engar túristabúðir!  Við gengum um og skoðuðum og ég tók myndir.  Þar sem miðbær Rotterdam var lögð í rúst í stríðinu (nema 2 byggingar)   þá eru þarna ótrúlegar byggingar - gósenland arkítekta! Og hún er svo hrein! Það var ekki sígarettustubbur á götunni - ég varla trúði mínum augum!!

Þriðjudag var leigt hjól handa minni og hjólaði ég heim til þeirra úr miðbæ Rotterdam - ég er ógó ánægð með mig.  Menningin þarna er ótrúleg hvað varðar hjólin.,  Og er ég býsna sátt á að hafa komist heim án þess að valda mér eða öðrum skaða!! Og við hjóluðum um 20km út fyrir Rotterdam.  Það var yndislegt!! Og aftur gott veður og sól! Eigum við að tala um moskító? - nei ég held ekki...

Miðvikudag fórum við Ragga yfir til Amsterdam og þá fékk Ragga sömu göngu og ég hafði fengið! Það var snilld að labba þetta aftur! Naut mín svo í góða veðrinu.  Sá alltaf nýja hluti sem ég hafði ekki séð í fyrri göngunni.  Hittum svo Hörpu eftir að hún hafði sólað sig í garðinum.  Tókum kvöldið með stæl.  Það var rosalega gaman í svona góðum hópi kjarnakvenna. 

Fimmtudag kláraði ég það sem ég þurfti að gera áður en ég fór heim.  Labbaði um með Dóu minni og sá enn fleiri skemmtilega staði og tók enn fleiri myndir.  

Vá hvað það var erfitt að kveðja þessar skvísur.  Þetta var allt svo mikil snilld, svo gaman og svo frábært!!

Takk æðislega fyrir mig elskurnar mínar !!

myndir eru á leiðinni á flikkrið - þið fáið svo cd sendann (Dóa, Ragga og Harpa)