mánudagur, janúar 31, 2005

Rugluð

já ég var að fatta að í dag er mánudagur. Ég var vakandi í alla nótt, sofandi í dag, og var að borða Cocoa Puffs í kvöldmatinn!
Helgin var fín. Mamma og pabbi komu í heimsókn á laugardaginn og það var alveg frábært! Gabríel sýndi listir sínar og lék á alls oddi. Þau komust sem betur fer til baka seinnipartinn, en veðrið á leiðinni var hræðilegt. Sandstormur og malbikið að fjúka leiðar sinnar er ekki mín hugmynd um gott ferðaveður.
Húsið hérna vaggaði á verstu hrynunum, en að hafa svona rosalegt rok í tvo heila daga er frekar of mikið af hinu góða. Ég verð alltaf svo hrædd um að gluggarnir fjúki inn, því ég horfi á þá bogna undan storminum, og eldhúsgólfið hreyfast! Enda skal engin segja mér að það hafi verið undir 20 m/sek.
Svo var rólegur dagur í gær, matur hjá Gumma og Rímu. Rólegt svo framan af þar til sonurinn vaknaði og ákvað að það væri sko vakitími núna - "party time" - yeah!! Hann var ekkert pirraður, ekkert vesen, bara sitja og horfa í kringum sig og hjala - svaka ánægður með lífið og tilveruna. Sem var ok fyrsta klukkutímann eftir gjöfina, en þegar klukkutímarnir urðu fleiri þá var þetta ekki eins sniðugt.
Svo dagurinn í dag var frekar erfiður, þar til ég náði að leggja mig um tvö. Svaf á mínu græna til fimm.
Þó dagarnir séu erfiðir á köflum, svefnlausar nætur, stress og tár (hjá mér), maður verði úttaugaður og útkeyrður, þá samt þakkar maður fyrir sig. Ég eignaðist heilbrigðan son, og allt gekk vel. Og fréttir eins og sú sem var í kvöld um hjónin sem misstu dóttur sína við fæðingu vegna þess að skurðdeildin er ekki opin allann sólarhringinn! Ég sat í "mjaltarbásnum" mínum (lazyboy) og hélt á Gabríel sem var alveg við að sofna og ég hreinlega get ekki ímyndað mér þá erfiðu tíma sem þessi hjón eiga fram undan. Ég get ekki ímyndað mér þessa tilfinningu og sorg sem þau eru að upplifa. Að þurfa að fara heim af fæðingardeild eftir svona atburð hlýtur að vera eitt það erfiðasta sem nokkur getur upplifað. Áður en fréttinni lauk þá var ég farin að hágráta af samúð með þeim. Og það sem flaug aftur og aftur í gegnum hugann "vá hvað ég er heppin"

Engin ummæli: