fimmtudagur, mars 10, 2005

"Ekki" dagur

Suma daga er maður bara alls ekki (svipað og bloggerinn er búinn að láta í dag!) Eins og vinkona mín hún Blessuð Blíða segir þá bara vaknar maður þannig að maður er best geymdur í rúminu með góða bók, eða allavega ekki fyrir augunum á öðru fólki. Og þannig er þessi dagur minn í dag. Og greinilega hjá syni mínum líka. Hann byrjaði daginn klukkan fimm, og ræsti mömmu sína, var vakandi, frekar geðillur til sex, vaknaði aftur klukkan átta, og ræsti mömmu sína aftur sem hafði aðeins náð að sofna loks klukkan sjö, var vakandi til tíu, þá tók pabbi hans við honum til að pása mömmu hans, sem lagði sig í von um að sofna aftur en lá í rúminu án þess að sofna til hálf tólf, þegar sonurinn varð brjál aftur. Ég dílaði við pabbann um að þrauka aðeins lengur á meðan ég reyndi að bæta og hressa útlitið með að hoppa í sturtu, sem var misheppnuð tilraun á alla kanta. Tók við syninum og dekraði og dedúaði þar til hann gjörsamlega gat ekki meir og datt út af um hálf tvö; örmagna af þreytu og pirring.
Jamm, þó sonur minn sé yfirleitt hið rólegasta og yndislegasta barn þá er hann bara mannlegur og getur átt sína slæmu daga líka eins og við hin. Hann er bara nokkuð lunkinn við að hitta á þá daga sem mamma hans er ekki upp á sitt besta, eða er það kannski ekki tilviljun....??
Margir segja að börn og mæður séu nokkuð beintengd á þessum tímapunkti og er þá ekki alveg jafn líklegt að þegar móðirin vaknar og upplifir “bad hairday” að aumingja barnið verði fyrir ákveðnum áhrifum frá því?
Allavega eru þau áhrif sem það hefur á mann og hund sú að þau helst vilja ekki verða á vegi mínum. Kaffið er það eina sem blívar á svona stundum, sérstaklega þegar maður er hættur að reykja!

Allaveganna, þá er ekki mikið að gerast hjá litlu fjölskyldunni þessa dagana. Við tókum rúnt í sveitina í gær. Rosalega fallegt veður, rosalega fallegt á leiðinni.

Ég er alltaf að vinna í þessum þrítugs málum mínum. Hrekk í kút og fæ hnút í magann reglulega við þessi reality check mín. Ég horfi stíft á dagatalið og vona að það færist aftur á bak. En verð að viðurkenna að ég er nokkuð fegin þegar ég hugsa um hvað ég hef að sýna eftir þessi 30 ár mín. Ég er jú orðin mamma, sem ég held að engann hafi grunað að ég myndi ná að framkvæma. Ég á hús, bíl, hund og mann. Ekki brjálaðan starfsframa, en er í skóla til að bæta það upp. En það sem komið er, er ég býsna stolt af, og já vildi ekki breyta neinu.

En allavega einni súkkulaðitebollu og einum ástarpung síðar líður mér betur, og er tilbúin í slaginn við daginn aftur (þó hann sé langt kominn)

Guðrún hin galvaska nær þrítuga

Engin ummæli: