Laugardagsgangan.
Jamms við Kítara ákváðum að heyra í Hafdísi og Jeltsín og athuga hvort þau væru upplögð í gönguferð. Jú þau voru það og þegar ég spurði Kítöru "hvort við ættum að fara og hitta Jeltsín" þá umturnaðist hún af kæti og snéri öllu við á meðan ég var að klæða mig.
Ok, þessi ganga er ekki frásögu færandi nema það að Jeltsín stoppar við læk, fær sér að drekka, og passar sig á brúninni sem er þakin snjó, og mjög varasöm. En mín, þessi skellibjalla hleypur í áttina að honum, stoppar ekki, rennur niður brúnina, snjórinn lætur undan og hún steypist niður í lækinn. Og situr þar föst með framlappir og trýni uppúr og getur sig hvergi hreyft og er bara við að sökkva niður undir snjóinn.
Við sáum þetta ekki gerast, og ég sé hana ekki fyrst, kalla á hana, og Hafdísi grunar hið versta, ég hleyp að brúninni, og sé hana.
Ég stökk niður að læknum, enda sjálf hálf ofan í snjónum og ísköldu vatninu, næ að grípa í bílbeltið hennar og kippi henni upp úr, hún var rennandi blaut greyið og ísköld.
Ég hugsa bara sem betur fer er hún lítil og ég get loftað henni, og að hún var í bílbeltinu því ég átti auðveldara með að ná í það en í hálsólina hennar. Hún hristi sig og kenndi sér einskis, sem betur fer, hún hafði ekkert meitt sig, hljóp með Jeltsín og greinilega hætti að finna fyrir kuldanum. Enda gott veður úti!! Svo núna erum við báðar rennandi blautar, komnar heim, og ætlum að láta fara vel um okkur.
En ég verð að viðurkenna að litla hjartað mitt varð verulega hrætt um þess litlu skellibjöllu mína á meðan á þessu stóð. Sama hræðslan sem ég fann fyrir þegar hún datt niður hérna fyrir ofan húsið, og þegar hún datt í sefið hjá tjaldstæðunum. Maður hættir sennilegast aldrei að vera hræddur um að eitthvað komi fyrir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli