mánudagur, nóvember 29, 2004

Róleg helgi

sem kemur kannski ekkert á óvart. Svaf mikið í lazy boy, horfði á fullt af myndum og þáttum - sem ég hef fengið "að láni". Fórum til Stöðvarfjarðar á laugardaginn - tilgangur að kíkja á jólabasar. Það var frekar fátæklegt á að líta, og við snillingarnir sem erum enn með höfuðborgarþjónustu í huga greinilega - héldum að það væri nú örugglega hraðbanki á Stöðvarfirði, en neibb, ekkert svoleiðis. Það hefði nú átt að glóa aðeins meira á perunni minni þar sem Fáskrúðsfirðingar fengu ekki fyrst hraðbanka nema snemma á þessu ári... En það er þó ekki búið að taka af okkur búðina eða sjoppuna!! Það var hvergi hægt að versla svo maður gæti fengið til baka af debeti! (þeir eru þó með bensín sjálfsala - en maður unir þeim það þar sem þeir eru ekki með neina aðra þjónustu)
En nú er ný vika tekin við og fyrsti sunnudagur í aðventu var í gær. Bærinn ljómaði upp í gær, og ætla ég að setja seríur í gluggana hjá mér í dag. Þá get ég notið þeirra aðeins áður en við förum á morgun í Mývó.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Smutti !!!!

Smutti minn - ég er ekki með e-mail hjá þér sem virkar ertu til í að senda mér meil!!!

Viðburðarlausir letidagar

Hæ hæ - ég hef lítið annað gert undanfarna daga eftir að ég kláraði prófin en að liggja með kúluna upp í loftið í lazy-boy.
Það er búið að snjóa, hlýna, rigna og ekkert afgerandi göngufæri fyrir óléttar konur. Reyndar náði ég mér í brodda undir skóna í gær, og gat aðeins labbað í morgun, en annars hef ég bara stoppað bílinn, staðið í sömu sporum og kastað frisbí.
Mæðraskoðunin í gær gekk vel og allt í gúddi á þeim endanum. Þegar átti að hlusta á hjartsláttinn þá voru sumir greinilega fúlir yfir að hafa verið vaktir af værum blundi með öllu potinu, því um leið og hún fann hjartsláttinn þá snéri bumbulíus sér undan, og hún þurfti að elta hann með hlustunartækinu. Hmm hvort skapgerðareinkennin komi fram svona snemma hef ég ekki hugmynd um.... En það er allavega líf og fjör þarna í góðu yfirlæti (miðað við hvað þetta stækkar þessa dagana).
Það er föstudagur í dag. Og ég er farin að stressa mig á hlutum sem við eigum eftri að gera áður en við förum til A-eyrar. En í næstu viku verður það Mývó til 6. des og svo er áætlað að færast um set (tímabundið fram yfir fæðingu/áramót) til A-eyrar. Og ég er að stressa mig á þvottahúsið er ekki tilbúið, og mér finnst svo margt sem þarf að gera, en svo er það bara þvottahúsið sem er ekki tilbúið. Ég held að þetta stress í mér stafi líka af því að ég get ekkert gert sjálf og finnst það óþægilegt. Svo ég mikla þetta soldið fyrir mér. Ef ég fengi einhverju ráðið þá væri ég þessa dagana með kústa og sópa um allt hús að þrífa breyta og bæta. Skil þetta ekki!! Er alls ekki svona vanalega - gæti verið vegna þess að ég má ekki gera þetta núna.
En allaveganna - þá er líðanin góð, er í góðu yfirlæti sjálf, hef sko ekki undan neinu að kvarta, liggur við að ég sé borin um á bómull.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Vetrarríki

Þegar ég loks komst á fætur í morgun og tíkinni til mikillar gleði náði að haska mér í útifötin og út þá blasti við mér stórkostleg sjón. Nýfallinn snjór, alls staðar. Bíllinn minn var algjörlega hulinn hvítri þykkri slæðu. Trén voru eins og á jólakorti. Svo stillt og kyrrt. Þetta var með fallegri sjónum sem maður sér um ævinna. Við nutum okkar í snjónum í labbónum okkar. Tókum ekki frisbí með heldur kastaði ég snjókúlum fyrir hana, hennar besta skemmtun, sérstaklega þegar hún þarf að hoppa í skafla og þegar hún sekkur ofan í þá. Og aftur skaut þeirri hugsun í kollinn að fljótlega má ég fara að setja upp seríur og dusta rykið af jóladótinu.
Um hádegið fór ég í klippingu, en ég hef ekki farið í alvöru klippngu á stofu til fjölda ára. Alltaf bara látið snyrta enda eða klippa í heimahúsi. Svo núna er ég með hár niður undir herðablöð með styttum í. Mikil breyting frá lubbanum sem ég var komin með, og var algjörlega hætt að ráða nokkuð við. En hún tok um 15 cm af hárinu (þegar ég sá það á gólfinu fór aðeins um mig) og mér finnst ég vera með svooooo stutt hár núna. En ég er sátt við þetta - auk þess þetta vex aftur á met hraða eins og vanalega.
Annars einkenndist dagurinn af leti. Ég stóð við það sem ég hafði ákveðið að fyrsti dagur eftir að prófum lyki færi í nákvæmlega ekki neitt nema dútl og dundur, og ég náði að standa við það!

mánudagur, nóvember 22, 2004

Prófin búin !!!

Jamm þá er því lokið í bili. Gekk ágætlega í dag, svo ég kvarta ekki. Einkunnir segja svo til um gengið. En ég má búast við þeim 6. desember.
Núna ætla ég að slaka á og fara að einbeita mér að því að vera barnshafandi, og njóta þess. Mér finnst ég geta horft á kúluna stækka núna dag frá degi, og ég finn líka áhrifin sem það hefur á mig. Finn ég hef ekki sama úthaldið og venjulega, og verð að sætta mig við það, enda er ekki langt eftir.
Við Kítara fórum í góða göngu í morgun, hittum Hafdísi og Jeltsín. Kítara ekkert smá happý yfir að hitta félaga sinn loksins.
Á leiðinni heim úr prófinu ákvað ég að dekra við mig og pantaði mér tíma í klippingu á morgun. Nei ég ætla ekki að klippa stutt - heldur bara gera eitthvað til að lífga upp á það, aðeins að breyta til.
Nú er tími til að láta undan spennufallinu sem fylgir því að ljúka prófum, og ætla að slaka á það sem eftir er kvölds.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Hálf einmannalegt

að sitja hérna svona snemma á laugardagsmorgni. Enginn mættur á msn og engin meil. Búin að sitja hérna síðan um rúmlega sjö, vaknaði með liðbandaverki og sinadrátt, og var vont að liggja í bælinu lengur, svo ég ákvað að skella mér í lærdóm. Það er líka rólegt hér á heimilinu svona snemma.
Rólegt yfir öllu, meira að segja ekkert rok úti, afskaplega notalegt.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Memory lane...

Ég asnaðist til að heyra eitt jólalag. Umræður um lagið Do they know it's christmas á sök á því. Og ég fattaði að ég hlustaði afar lítið á jólalög í fyrra. Meira að segja jóla cdarnir voru ekkert spilaðir í fyrra. Og ég fór að hugsa um hvernig mér leið fyrir ári síðan. Vá maður lifandi. Dagbókin var heldur óskemmtileg lesning. En samt er ég ánægð með að hafa náð að skrifa niður líðanina og hvernig dagarnir voru. Svarsýnin, þunglyndið og einmannaleikinn allsráðandi. Og ég sá það að Kítara átti stóran hlut í að ég hélt geðheilsunni. Og hvernig í fjáranum ég fór að því að ná prófunum í þessu ástandi í fyrra er mér hulin ráðgáta.
Og þegar ég les dagbókina núna þá get ég ekki annað en hugsað um hve lífið getur breyst. Hvernig hlutirnir hafa þróast, og hvernig mér líður í dag, ári seinna. Tvær ólíkar manneskjur hérna á ferðinni. Árið 2004 hefur verið mjög viðburðarríkt, og ég hefði aldrei getað ímyndað mér fyrir ári síðan að mér ætti eftir að líða svona vel eins og mér líður í dag.
Þetta er allt mjög skrýtð.

Gleðilegan föstudag

Og til hamingju með helgina framundan! Ákvað að fá mér kaffibolla áður en ég færi út með tíkina í dag. Það er enn allt of dimmt til að fara út fyrir bæinn í gönguferð (engir ljósastaurar þar) Er búin að opna bækur og er búin að reikna eitt dæmi í binary. Er búin að skipuleggja daginn og helgina í námið:
  • föstudagur: kaflar 1 og 2 (sagan og binary)
  • Laugardagur: Kaflar 5 og 6 (skipanasett og minni)
  • sunnudagur: kafli 7 og yfirferð á köflum 3 og 4 (er búin að fara vel yfir þá núna en þeir eru erfiðastir)

Það er kalt í dag. Vona að gallinn komist yfir kúluna. Ég tók eftir því í gær að hún er farin að stækka helmingi hraðar. Og lætin eru alltaf jafn mikil. Þetta ætlar að verða mikill orkubolti!

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Fíla mig eins og aumingja

Merkilegt. Mér finnst afar erfitt að sætta mig við það að ég get ekki gert hlutina eins og áður. Ljósmóðirin bannaði mér að gera hitt og þetta og mér finnst afar erfitt að hlýða því. Mér finnst afar erfitt að mega ekki sópa/skúra/ryksuga. Mér finnst allt vera svo skítugt og má ekkert gera við því. Vil heldur ekki nöldra í Hjölla, nöldra alveg nóg nú þegar. Greip áðan sóp og sópaði stofuna og viti menn - fékk svona nett í bakið í leiðinni, og í lífbeinið, niður í læri, og semst geri ekki mikið það sem eftir er dags. (btw fyrir ykkur sem ekki vitið þá er ég með grindarlosun á byrjunarstigi) og þetta fer í skapið á mér!!! Þess vegna fíla ég mig sem aumingja!! Og trúið mér það hjálpar ekki til við hormónavitleysuna sem fer hríðversnandi eftir því sem líður lengra!

Próflestur continues

Góðan daginn gott fólk. Það þýðir víst lítið að slaka á í þessum prófundirbúningi. Fór lítið fyrir lestri í gær, var í engu stuði né ástandi til að læra eftir svefnlitla nótt.
En í dag horfir málið öðruvísi við. Búin að fara út með tíkina, skafa af bílnum, festa mig, leika mér í skaflaleik á bílnum, sturta, morgunverður og er nú komin fyrir framan tölvuna með kaffibollann við hönd, tilbúin til að takast á við verkefni dagsins.
Væri alveg sátt við að þurfa ekkert að fara út aftur í dag. Veðrið leit ok út þegar ég var að fara af stað og það er ok veður úti, nema þegar rokhrynurnar fara af stað og feykja upp öllum lausa snjó sem fallið hafði í nótt, þá sést ekki handaskil. En það er afskaplega fallegt og jóló úti, verð ég að viðurkenna.
Í gamla daga þá fékk maður alltaf jólafílíng við að klára prófin, skildi það koma upp líka núna? Eins og á vorin, þegar prófin eru búin þá á að vera komið sumar. Ég vona það, er alveg til í að fá smá jólapúst núna. Hver veit hvernig desember mánuður verður hjá okkur.....
Á þeim nótunum verð ég að segja að okkur bumbulíusi líður bara mjög vel. Bumbulíus er fullur af krafti og gengur erfiðlega að vera kyrr. Það fer greinilega ekki ílla um hann þar sem hann heldur bara áfram að stækka og stækka og ég stækka og stækka, og er komin með þokkalega kúlu beint út í loftið. Stundum læðist sú hugsun að mér "hvernig verð ég þá í desember??"
Stundum finnst mér þetta afar óraunverulegt ennþá. Og stundum fyllist ég óöryggi og kvíða. Me the baby dummy.... En næ að hrista það af mér jafn óðum. Æðislegt Þórhalla systir fékk kassana frá sínum fyrrverandi með bunch af barnafötum. Fullt fullt, af hennar börnum. Við Hjölli getum semst farið yfir þau þegar við verðum í Mývó fyrstu vikuna í des. og fengið lánað hellings og meir!
Jæja - best að vinda sér í lærdóminn - prófið fer ekki neitt!

mánudagur, nóvember 15, 2004

Læt fara vel um mig

í lazy-boy og horfi á Stargate SG-1. Ég einhvern veginn kem mér engann veginn fyrir neinstaðar annarsstaðar en í þessum ágæta stól mínum. Rúmið mitt er þægilegt og gott, en ég vakna alltaf þegar ég þarf að skipta um hlið (get ekki sofið á bakinu lengur) því það er orðið svo mikil fyrirhöfn. En í lazy-boy þá þarf ég ekki að snúa mér eða bylta. Þægilegt. Versta við að vera vakandi enn er að ég er orðin svöng aftur, er miklu oftar svangari undanfarið... hef heyrt að það fylgi víst, but correct me if I'm wrong please!
Jamm fórum til Eskifjarðar í dag. Hef ég sagt ykkur hve mikið ég hata að keyra í svona hálku og veseni. En þá er bara að aka rólega, "eins og manneskja" eins og pabbi kallar það. Já og tannsi þurfti að sauma Hjölla í þetta skiptið - vona nú að þetta fari að skána hjá honum.
Allir kennarar hérna hafa sagt upp störfum - það er semst ekki 15% eða 30% starfsmanna hér í skóla heldur 100% uppsagnir. Hvar endar þetta??
En allavega - Stargate bíður mín, ætla að láta fara vel um mig og njóta þáttarins.
Góða nótt dúllurnar mínar.

Fyrra prófi lokið...:p

Nú er ég að slaka mér niður eftir þennann áfanga. Var að koma heim úr C++ prófinu mínu. Gekk þokkalega, en svo segir bara einkunnin til um endanlega niðurstöðu. Og þar sem Tölvuhögunarprófið er á mánudag eftir viku þá ætla ég að leyfa mér að eiga frí frá lærdómi það sem eftir er dags í dag. Fann í fyrsta skipti fyrir virkilegum prófskrekk í morgun. Þegar ég mætti þá varð ég að byrja á því að einbeita mér að því að lokast ekki alveg, og það hjálpaði þegar ég sá að spurningin með hæsta vægið veittist mér auðveldust, og við að klára það opnaðist rest fyrir mér, en ég hef aldrei lent í því áður að lokast á prófi. Kenni því um að sjálfsöryggið er ekki alveg í toppi. Þakka því að hafa spreytt mig á gömlum prófum hérna heima til að æfa mig í að skrifa kóða á blað, en ekki hafa compilerinn til að finna villurnar fyrir mig(kommur, semikommur, svigar og þess háttar) En þetta gekk, ég lifði af og hugsa að það sé ekki fall í gangi hjá mér.
Hjölli fór til tansa sl mánudag, til að rífa úr 2 jaxla. Sem er kannski ekki frásögu færandi nema hvað alla vikuna hefur hann verið að drepast í munninum, og ekket að skána. Svo í dag hringdi hann í tansa og á tíma í dag á Eskifirði. Svo við rennum þangað yfir á eftir. Ég hef aldrei þurft að láta rífa úr mér tennur, svo ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta er, en ég hugsa að þetta sé verra en andskotinn. Og ég trúi því ekki að það sé normal að vera að drepast í heila viku á eftir??
Það var jólalegt í morgun þegar ég vaknaði. Ný fallinn snjór yfir öllu. Kyrrt og rólegt yfirbragð á byggðinni. Hreinlega vantaði bara jólaseríur á húsin, þá hefði þetta verið ekta jólakortamynd að líta yfir fjörðinn. Maður hreinlega komst ekki hjá því að hugsa til þess hve stutt er í að maður fari að heyra jólalög í útvarpi, dusti rykið af jóladiskunum, finni jólalögin á harða disknum, og greiði úr jólaseríunum síðan í fyrra og bæti fleirum í safnið til að skipta út fyrir þær sem eru ónýtar. Það verður sennilegast ekki mikið skreytt á þessu heimili í ár, þar sem við verðum af bæ yfir hátíðarnar. En ég ætla samt að njóta þess að setja upp seríur, kerti og dúka. Jafnvel baka smávegis, til að fá smá lykt. En við verðum ekki mikið heima í desember. Mamma og pabbi eru að fara til Dublin með Kísiliðjunni 1-6 desember og verðum við hús og hundapassarar fyrir þau í Mývó á meðan. Svo sennilegast um miðjan des færum við okkur um set til að bíða eftir stóra deginum.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

kaldhæðni...

munið þið mínir dyggu lesendur eftir færslu sem ég skrifaði um manneskju á mínum aldri sem hafði verið að baktala okkur en brosti alltaf svo afskaplega næs og var alltaf svo næs þegar maður talaði við hana? Jæja - haldiði ekki að sú sama sé að væla á sínu bloggi yfir kjaftaskjóðum og baknagi!!! Ég man hvað ég varð ofboðslega sár í sumar þegar ég heyrði hvað hún var að láta út úr sér varðandi okkur, svo kannski hlakkar aðeins í mér yfir þessu, bara vegna þess að ég vona að hún læri af reynslunni!!

laugardagur, nóvember 13, 2004

Nýji heimilismeðlimurinn

Já ég verð að taka undir með henni Sollu minni í US þá er alveg hreint yndislegt að hafa uppvaskara á heimilinu. Í kvöld voru margir í mat. Pabbi Hjölla, þrír vinir hans og vinur Hjölla; Bjössi í Brú svokallaður, og svo við Hjölli - samtals 7 manns. Ég er alltaf jafn stolt af eldhúsborðinu okkar sem er huge í stóra eldhúsinu, nóg pláss fyrir alla. Og þegar ganga átti frá þá vorum við Hjölli ekki lengi að, settumst inn í stofu og vinnuþjarkurinn vinnur sína vinnu inni í eldhúsi á meðan við slökum á. Svona á þetta að vera!!
Bjössi vinur Hjölla kom í gærkveldi til að hjálpa honum við að henda stórum þungum hlutum á haugana, sem ég get ekki/má ekki lofta. Svo var Gummi félagi hans mættur á svæðið um tíu í morgun til að hjálpa honum við að rífa út af annarri hæðinni.
Ég lagðist yfir lærdóminn, gekk vel, finnst ég vera að nálgast það að vera tilbúin í prófið á mánudaginn. Enn er dagur til góða, til að nota í glósur og yfirferð. Leggst vel í mig.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Bloggerbreytingar....

Það er greinilegt að sumir (taki það til sín sem vilja) eru alls ekki að nenna að gera það sem þeir eiga að vera að gera... Og það sést alltaf þegar allt í einu out of no where verða mega breytingar á bloggum þessa fólks... Kannast sjálf við það, og þegar maður sekkur ofan í template heiminn þá er manni varla viðreisnar von, því þetta er svo mikill tímaþjófur að það hálfa. Skrolla um netið og finna rétta templatið, laga svo og adda inn linkum, snurfussa og fínisera... þetta er dútl og föndur. Góð leið til að drepa tímann, gleyma sjálfum sér og öllu því sem gerist í kringum mann - einkumm góð leið til að gleyma öllu sem maður á að vera að gera en bara hreinlega hefur ekki andlega orku í að sinna.
Mér líður þannig núna. Ég ætla samt að reyna að sporna við freistingum til að breyta útliti bloggsins míns. En undanfarna daga er ég búin að vera að læra og læra og læra. Afar fátt annað kemst að í mínum haus. Og þegar ég vaknaði í morgun (eftir btw óþægilegan svefn því ég hreinlega kem mér ekki fyrir lengur) þá var ég enn jafn þreytt og í gær þegar ég lagðist til svefns. Í augnablikinu finnst mér að ég hreinlega komi ekki fleirum upplýsingum í hausinn á mér, ég stari á tölvuskjáinn, á forritið sem ég er að leika mér með, það kemur upp villa og ég bara stari tómu augnaráði á það.
Ég hins vegar byrjaði morguninn á að fara út með tíkina, fá mér svo morgunmat og grípa einn Charmed þátt í tölvunni (ok ok ekki commenta á entertainment efnið) hélt að þetta myndi aðeins koma heilabúinu af stað, en það hreinlega virkaði ekki.
Á maður að láta undan og sleppa lærdómi í þessu ástandi eða á maður að ignora sjálfan sig og reyna að halda áfram???

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Prófin nálgast

Það er ekki mikið í gangi hjá mér þessa dagana annað en próflestur. Mán, þri og í dag hef ég vaknað, út með hundinn svo sest yfir lærdóm. Er í þessu að fara að ráðast á gamalt próf til að spreyta mig á og athuga hvar ég stend og hvar veikleikarnir liggja. Lausn þessa prófs kemur svo inn á innra net háskólans síðar í vikunni (samkv. kennara) Hann sagði að það væri besta leiðin til að undirbúa sig undir C++ prófið. Annars hef ég verið að æfa mig í að búa til bull forrit og alls kyns rugl og fá það til að virka. Mér finnst það geggjað gaman actually.... me weird kannski, kannski ekki, dunno.
Heavy rok í gær, snjór í dag, bleyta og rigning, slapp.
Enn og aftur reyni ekki að stressast yfir þessum blessuðu prófum, en maður gerir bara sitt besta, og vonar að það sé nógu gott til að ná þeim með ágætis útkomu.
Wish me luck.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Bensínbófar





---


sunnudagur, nóvember 07, 2004

Komið í lag

Fórum í gær og náðum okkur í nýtt sjónvarp í BT. Dóluðum okkur aðeins á Egs í leiðinni, fengum okkur að borða og næs þar. Breyttum svo aðeins í stofunni til að koma stóra tækinu fyrir, keyptum 29" tæki, og sjónvarpið sjálft virkar helmingi stærra um sig en gamla 28" tækið sem við áttum. Svo auðvitað þurftum við að finna stað þar sem sjónvarpið væri öruggt á fyrir veðrum og vindum...
Skemmtilegt hvað myndin er skýr og tær í nýja sjónvarpinu. En það gamla var orðið gamalt og slitið og nota bene keypt notað og viðgert á slikk af verkstæðinu í BT fyrir mööörgum árum - þegar brotist var inn hjá okkur og öllu stolið. Ég bara lofa það gamla og blessa fyrir hve það entist vel, og ef það hefði ekki drukknað hefði það sennilegast lifað nokkur nár í viðbót!!!
Svo gómaðist músin, og reyndar voru þær tvær blessaðar. Og höfum við ekkert orðið vör við að fleiri skildu vera á vappi.
Og dagurinn í dag er búinn að vera lærdómsdagur. Svaka dugleg. Enda líka byrja prófin eftir viku, er að reyna að panica ekki um of yfir því. Forritun er fyrst og fer þessi vika í það alveg. Tölvuhögun fær að bíða þar til í vikunni á eftir, en það er vika á milli prófa. (enskan má bíða)
Svo núna ætla ég að njóta þess sem eftir er af sunnudeginum í að slaka á og hreinsa hugann frá öllu námi.
Þurfum reyndar að fara á morgun og klára pappírsvinnuútfyllingardæmi vegna fæðingarorlofsins. Er ekki alveg að fatta þetta, en það kemur í ljós. Ætlum í leiðinni að kíkja í Byko svo Hjölli geti náð í meira parkett til að leggja á eldhúsið. Svo næstu vikur verða annasamar. Hjá okkur báðum reyndar. Því nú styttist í allt, styttist í desembermánuð, og þá fer að styttast í að við færum okkur um set (tímabundið) til A-eyrar til að bíða eftir stóra deginum. Óg ég stækka og stækka bara þessa dagana.
Ég vildi helst geta bara beðið hér, heima hjá mér, þar sem mér líður best, með minn lazy-boy og mínar tölvur og mitt net, mitt sjónvarp og mína kaffikönnu og mitt rúm.
En ég bara þori ekki að eiga það á hættu að bumbulíus ákveði að nú sé tími kominn á að kíkja á umheiminn í miðjum snjóstormi, eða asahláku. Hef ekki mikinn áhuga á að fæða barnið mitt á miðjum fjallvegi í sjúkrabíl í brjáluðu veðri. Nóg stressuð fyrir fæðingunni nú þegar. (vil hafa mömmu á sama landsfjórðungi líka)
Jæja nóg komið af bulli í dag. Njótið kvöldsins dúllurnar mínar

föstudagur, nóvember 05, 2004

Segi bara eins og hinir:

"Enn og aftur föstudagur." Þetta hefur maður verið að lesa á bloggum víðsvegar um landið. Enda ekkert skrýtið. Þetta þýðir að það er vika síðan ég kom heim frá London, ok, og þá eru 2 vikur síðan ég fór út!! Áður en ég veit af þá verða prófin búin, jólin komin og ég orðin mamma!! ó mæ gaaadddd. Ég finn fyrir sams konar kvíða fyrir prófum og því að verða mamma - ætli þetta séu sömu efnaskipti sem verða í prófskrekk og mömmuskrekk?? Dóa - þú ert öll í þessu - gimme komment on that!!
Annars var ég mega dugleg í gær að læra. Var ekki búin að missa eins mikið úr og ég hélt. Svo þetta er allt á góðu róli hérna. Lék mér meira að segja við að æfa mig í forritun, klösum og smiðum í rólegheitunum og hlustaði á nýja REM diskinn í leiðinni sem kom ágætlega út. (btw Jóhanna ég keypti hann - í London he he)
Við fáum sjónvarpið eitthvað bætt frá tryggingum, ætli við náum okkur ekki í nýjan imba í dag eða eftir helgi. Og mýslugildrur eru komnar víðs vegar um húsið sem eru nota bene skaffaðar af bænum ef svona gerist. Kítara hefur fengið veður af henni, en náði ekki að sjá hana almennilega til að ná að hlaupa á eftir henni.
Er eitthvað svo eirðarlaus, er í engum gír til að læra, er eitthvað stress hjá mér í gangi, finnst ég verða að þrífa, samt í engum gír að þrífa..... æ þið þekkið þetta.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Sjónvörp ekki vatnsþolin...

Jamm þar kom að því að sjónvarpið gaf upp öndina sökum drukknunar. Það gerði þessa líka litlu dembu sem stóð yfir í þó nokkuð marga klukkutíma og hreinlega drekkti sjónvarpinu okkar. Það hafði brotnað úr strompinum og lekið þar niður á milli. (Og auðvitað var sjónvarpið beint fyrir neðan) Það er allavega eina skýringin sem við höfum þar sem hingað til hefur aldrei lekið inn í þessum þekktu austfjarðarúrhellum. Og það má þá líka hafa verið þokkalegt vatnsmagn þar sem það er heil hæð á milli!! Nett pirruð á því að þurfa að punga út fyrir nýju sjónvarpi!
Og svo í ofanálag þá er næturgestur hjá okkur, sem hefur náð að bjargast frá vosbúð og drukknun í gær, semst sloppið inn í eitthvert skiptið sem Kítara hefur farið út. Þó svo ég vilji nú mýslu ekki mein þá vil ég ekki hafa hana í húsinu mínu. Og verður farið í að setja upp gildrur hér og þar til að góma hana. Nema Kítara nái henni fyrst. Hugsa samt að mýsla passi sig á að sýna sig ekki mikið þar sem Kítara er. Kítara hefur veitt mýs áður, er snögg og á auðvelt með að góma þær. Spurning hvernig það gangi hérna innandyra.
Ég er núna að bögglast við að læra, og reyna að koma tíkinni í skilning um það að boltaleikur og fyrirlestrar ganga ekki beint vel saman.
Fór í mæðraskoðun í morgun og allt leit vel út, blóðþrýstingur, piss og hjartsláttur. Smá bjúgmyndun í gangi, svo ég verð víst að láta poppið eiga sig um sinn.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Erfitt að koma sér aftur í gírinn

Ég er enn svo ekki komin heim enn - er enn með hugann í fríinu, úti í London, dreymandi svipur og starandi augnarráð. Ég hreinlega á í miklum erfiðleikum með að koma mér aftur í lærdómsgírinn. Sit hérna fyrir framan lappann (pésinn er á sygehuset í næsta herbergi) og stari á skjáinn. Er að glíma við enskuverkefni (mundi allt í einu eftir því að ég er í ensku 503 líka) sem hefur fengið að sitja á hakanum í vetur (á fullt óklárað í þeim efnunum) Ætla að vinna í þeim á meðan pésinn er lasinn þar sem öll gögnin mín úr HR eru í pésanum. Er að reyna að stressa mig ekki um of vegna prófanna sem nálgast hratt (allt of hratt) Ég náði að afstressa mig algjörlega í fríinu, var ekkert að stressast yfir einu eða neinu hvað varðaði skólann, mjög ánægð með það hafa náð því. Enda veit ég að það er nægur tími til stefnu. Er líka búin að vera dugleg í vetur að læra.
Það var bara svo gaman úti, það var bara svo gott að ná að njóta þess að vera til.

Komin heim frá London

Ahhhh það er nú svolítið gott að komast heim aftur. Við náðum reyndar ekki að gera allt sem okkur langaði til, en það er allt í lagi og má geyma þar til næst. Miðvikudagurinn fór í búðarráp og rölt um hverfi. Hjölli fann sér AA fundi og ég fann fatabúðir á meðan. Fimmtudaginn notuðum við í að finna svo það sem við ætluðum að kaupa og dúllast. Við fórum svo á British Museum á föstudeginum. Við urðum að finna okkur auka ferðatöskur til að komast heim með allt dótið, og heppin að fá ekki á okkur yfirvigt!
Þetta var alveg yndisleg ferð í alla staði. Var rosalega gott að komast aðeins í burtu frá öllu, vera bara maður sjálfur og hafa engar áhyggjur.
Við tókum fullt og hellings af myndum. Bæði venjulegar og videomyndir þar sem við keyptum okkur digital videokameru. Þarf að grisja úr og setja vel valdar myndir á netið handa ykkur að skoða.
Það fór rosalega vel um Kítöru á hótelinu. Hún var sæl og pattaraleg, hafði ekkert horast og leit rosalega vel út. Hún sýndi umsjónarmanninum mikla vinsemd og hlýju sem þýðir að það er góður maður, og hefur verið góður við hana. Hann kallar sig líka afa gamla við hundana. Hún td heimtaði að hann myndi kasta fyrir hana frisbí. Hún var mjög hrifin af honum. Hótelið er snyrtilegt, vel útbúið, vel lyktandi, gott pláss fyrir hundana. Hann setur kröfur á bólusetningar sem er mjög gott. Og miðað við mína fékk hún nóg að borða.
Svo ég mæli með hundahótelinu á Leirum !!!