mánudagur, nóvember 15, 2004

Fyrra prófi lokið...:p

Nú er ég að slaka mér niður eftir þennann áfanga. Var að koma heim úr C++ prófinu mínu. Gekk þokkalega, en svo segir bara einkunnin til um endanlega niðurstöðu. Og þar sem Tölvuhögunarprófið er á mánudag eftir viku þá ætla ég að leyfa mér að eiga frí frá lærdómi það sem eftir er dags í dag. Fann í fyrsta skipti fyrir virkilegum prófskrekk í morgun. Þegar ég mætti þá varð ég að byrja á því að einbeita mér að því að lokast ekki alveg, og það hjálpaði þegar ég sá að spurningin með hæsta vægið veittist mér auðveldust, og við að klára það opnaðist rest fyrir mér, en ég hef aldrei lent í því áður að lokast á prófi. Kenni því um að sjálfsöryggið er ekki alveg í toppi. Þakka því að hafa spreytt mig á gömlum prófum hérna heima til að æfa mig í að skrifa kóða á blað, en ekki hafa compilerinn til að finna villurnar fyrir mig(kommur, semikommur, svigar og þess háttar) En þetta gekk, ég lifði af og hugsa að það sé ekki fall í gangi hjá mér.
Hjölli fór til tansa sl mánudag, til að rífa úr 2 jaxla. Sem er kannski ekki frásögu færandi nema hvað alla vikuna hefur hann verið að drepast í munninum, og ekket að skána. Svo í dag hringdi hann í tansa og á tíma í dag á Eskifirði. Svo við rennum þangað yfir á eftir. Ég hef aldrei þurft að láta rífa úr mér tennur, svo ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta er, en ég hugsa að þetta sé verra en andskotinn. Og ég trúi því ekki að það sé normal að vera að drepast í heila viku á eftir??
Það var jólalegt í morgun þegar ég vaknaði. Ný fallinn snjór yfir öllu. Kyrrt og rólegt yfirbragð á byggðinni. Hreinlega vantaði bara jólaseríur á húsin, þá hefði þetta verið ekta jólakortamynd að líta yfir fjörðinn. Maður hreinlega komst ekki hjá því að hugsa til þess hve stutt er í að maður fari að heyra jólalög í útvarpi, dusti rykið af jóladiskunum, finni jólalögin á harða disknum, og greiði úr jólaseríunum síðan í fyrra og bæti fleirum í safnið til að skipta út fyrir þær sem eru ónýtar. Það verður sennilegast ekki mikið skreytt á þessu heimili í ár, þar sem við verðum af bæ yfir hátíðarnar. En ég ætla samt að njóta þess að setja upp seríur, kerti og dúka. Jafnvel baka smávegis, til að fá smá lykt. En við verðum ekki mikið heima í desember. Mamma og pabbi eru að fara til Dublin með Kísiliðjunni 1-6 desember og verðum við hús og hundapassarar fyrir þau í Mývó á meðan. Svo sennilegast um miðjan des færum við okkur um set til að bíða eftir stóra deginum.

1 ummæli:

Dóa sagði...

Til lukku með að hafa klárað prófið! Auðvitað gekk þetta allt saman vel, ekki við öðru að búast!

Stórt knús og kossar

p.s. takk fyrir kortið frá London,það datt inn um lúguna áðan! :o)