þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Vetrarríki

Þegar ég loks komst á fætur í morgun og tíkinni til mikillar gleði náði að haska mér í útifötin og út þá blasti við mér stórkostleg sjón. Nýfallinn snjór, alls staðar. Bíllinn minn var algjörlega hulinn hvítri þykkri slæðu. Trén voru eins og á jólakorti. Svo stillt og kyrrt. Þetta var með fallegri sjónum sem maður sér um ævinna. Við nutum okkar í snjónum í labbónum okkar. Tókum ekki frisbí með heldur kastaði ég snjókúlum fyrir hana, hennar besta skemmtun, sérstaklega þegar hún þarf að hoppa í skafla og þegar hún sekkur ofan í þá. Og aftur skaut þeirri hugsun í kollinn að fljótlega má ég fara að setja upp seríur og dusta rykið af jóladótinu.
Um hádegið fór ég í klippingu, en ég hef ekki farið í alvöru klippngu á stofu til fjölda ára. Alltaf bara látið snyrta enda eða klippa í heimahúsi. Svo núna er ég með hár niður undir herðablöð með styttum í. Mikil breyting frá lubbanum sem ég var komin með, og var algjörlega hætt að ráða nokkuð við. En hún tok um 15 cm af hárinu (þegar ég sá það á gólfinu fór aðeins um mig) og mér finnst ég vera með svooooo stutt hár núna. En ég er sátt við þetta - auk þess þetta vex aftur á met hraða eins og vanalega.
Annars einkenndist dagurinn af leti. Ég stóð við það sem ég hafði ákveðið að fyrsti dagur eftir að prófum lyki færi í nákvæmlega ekki neitt nema dútl og dundur, og ég náði að standa við það!

Engin ummæli: