miðvikudagur, september 24, 2003

Var að læra og nenni ekki meir....

Þurfti að klára 2 fyrstu spurningar í kafla 4 í líffræði og senda kallinum fyrir tímann á morgun. Það gekk og búin að senda. Ætti sossum að lesa og glósa kaflann almennilega núna - þarf þá ekki að gera það um helgina, en ég bara nenn'ekki meir....

Áður en ég fór í morgun þá spurði ég Hjölla hvort eitthvað lægi fyrir hjá þeim í dag, og hann fattaði hintið - þeir þrifu í dag!! ég ekkert smá ánægð. :D

Annars leið mér eins og það væri stórt "kick me" skilti á mér í dag. Dagurinn í vinnunni byrjaði á því að sú sem þrífur skólann byrjaði á að setja út á hitt og þetta - sem þær gerðu iðulega þegar ég var með selið uppi í skóla, og talaði um að mæta fyrr á morgun til að ræða það sem við Lára (sú sem sér um sveitaeldhúsið) eigum að sjá um ....?? já ég sé um skólaselið - en þar var aldrei talað um þrif eða annað slíkt. Ég gef 20 mín á hverjum degi til að ná í matarkassann og fara með hann upp á elliheimili. Ef ég á að fara að þrífa eitthvað þá er eins gott að það verði þá bara bætt á mig í vinnu og fái þá borgað meir en 80%

Svo mætti ég uppeftir á elliheimilið. Mátti ekki leggja þarna, mátti ekki vera á þessum skóm, gera þetta svona en ekki hinsegin, hugsa svona um matinn og börnin, gera þetta með matinn og börnin, gera svona en ekki svona og þegar þær byrjuðu á að babbla um hvað ég ætti að gera í skólaselinu sjálfu þá byrjaði ég að loka eyrunum. Þetta er aðallega forstöðukonan sem lætur svona. Held samt að hún hafi fattað mitt "fálega kurteisa" brosandi viðmót (þið þekkið svipinn sem ég set upp þegar ég verð pirruð en brosi bara) og hún kom svo aftur þegar ég var að fara og kom með ágætis tillögur með breytingar. Semst ég átti ekki alveg að krjúpa og sleikja gólfið sem hún gekk á heldur kom hún á móts við mig lika.

Þessi sama kona vill endilega fá mig í smá aukavinnu um helgar á elliheimilinu. Ég var alvarlega að spá í það, gefur ágætlega af sér. En ég held að ég og þessi kona getum alls ekki unnið saman. Þið sem þekkið mig vitið að ég læt ekki auðveldlega að stjórn, ég gjörsamlega þoli ekki þegar fólk reynir að ráðskast með mig, og hún er akkúrat þannig að hún vill ráðskast með allt og alla. Svo ég held að ég afþakki hennar góða boð um aukavinnu. Peningar eða geðheilsa (sem gæti leitt til líkamsáverka á henni) þá vel ég að halda geðheilsunni og hafa sakavottorðið enn hreint.

Ég fæ það á tilfinninguna að fólk sem þekkir mig ekki hérna haldi að ég sé bara fávís ung kona úr Reykjavík sem þekkir ekkert til vinnu eða samfélags úti á landi. Það eru ALLAR konur að reyna að ala mig upp hérna. En ég hugsa að ég hafi reynt og upplifað fleira um lífsleiðina þó yngri sé en flestar af þeim.

Engin ummæli: