Jamm þá er maður kominn heim. Eftir hreinlega yndislega viku hjá yndislegu fólki.
Byrjaði á að fara til Amsterdam til Dóu minnar á fimmtudeginum. Lenti síðla kvölds og fórum við heim til hennar og kjöftuðum yfir köldum Hertog Inn.
Daginn eftir var svo farið í labbitúr um Amsterdam. Og það er snilld að labba um þessa fallegu borg. Hún er ekki stór svo Dóa tók mig um hana nánast alla. Hún labbaði með mig um rauða hverfið, um kína hverfið, um túrstahverfin og göturnar og auk þess sem hún tók mig staði sem túristar fara ekki og þannig fær maður flotta yfirsýn á þetta allt saman. Og ekki má gleyma að við príluðum upp í klukkuturn (með leiðsögn) og þar sást yfir allt!!!
Og auðvitað var stoppað í bjórsmakk reglulega á gönguleiðinni. Enduðum daginn á vinnustaðinum hennar og hittum þar vinkonu hennar Hörpu sem reyndist vera hina skemmtilegasta - ég segi það bara - haha ha !
Það var heldur þunnt í mér daginn eftir þegar ég skoppaðist með lest yfir til Rotterdam. Raggan mín og Fergal tóku þar á móti mér. Meiri hiti og meiri raki þar en í Amsterdam daginn áður.
Við Ragga fórum á Zomercarnaval í downtown Rotterdam. Töldum um 50 vörubíla með tónlist og dansandi flokkum á eftir. Ótrúlega flottir búningar og dansatriði. Tók hellings af myndum og þetta var rosalega gaman að fylgjast með þessu. Og þar sem skrúðgangan endaði voru fjöldi tjalda með heitum mat til sölu sem var ættaður víðsvegar um heiminn.
Á sunnudeginum fórum við í yndislegan garð með grill og nesti. Rosalega heitt og sólin skein svo það var hvergi skjól. Þá er einmitt gott að fara þarna og gera ekki neitt. Það er vatn við garðinn, buslulaug fyrir krakkana með ýmsum leiktækjum. Þarna voru snekkjur á sveimi á vatninu og hinum megin gat maður séð myllur og enn stærri báta. Þarna var dásamlegt að vera. Mikið af fólki greinilega nýtir þennan garð á sama hátt og þau Ragga og Fergal gera nánast við hvert tækifæri - enda skil ég þau afskaplega vel. Þetta er í göngufæri við þau - smá spotti en þau eru alltaf á hjólum.
Mánudag fórum við í göngu um Rotterdam aftur. Og það var ótrúlegt að sjá muninn á borginni frá laugardeginum. Ekkert af fólki nánast - þarna eru engir túrisitar - og engar túristabúðir! Við gengum um og skoðuðum og ég tók myndir. Þar sem miðbær Rotterdam var lögð í rúst í stríðinu (nema 2 byggingar) þá eru þarna ótrúlegar byggingar - gósenland arkítekta! Og hún er svo hrein! Það var ekki sígarettustubbur á götunni - ég varla trúði mínum augum!!
Þriðjudag var leigt hjól handa minni og hjólaði ég heim til þeirra úr miðbæ Rotterdam - ég er ógó ánægð með mig. Menningin þarna er ótrúleg hvað varðar hjólin., Og er ég býsna sátt á að hafa komist heim án þess að valda mér eða öðrum skaða!! Og við hjóluðum um 20km út fyrir Rotterdam. Það var yndislegt!! Og aftur gott veður og sól! Eigum við að tala um moskító? - nei ég held ekki...
Miðvikudag fórum við Ragga yfir til Amsterdam og þá fékk Ragga sömu göngu og ég hafði fengið! Það var snilld að labba þetta aftur! Naut mín svo í góða veðrinu. Sá alltaf nýja hluti sem ég hafði ekki séð í fyrri göngunni. Hittum svo Hörpu eftir að hún hafði sólað sig í garðinum. Tókum kvöldið með stæl. Það var rosalega gaman í svona góðum hópi kjarnakvenna.
Fimmtudag kláraði ég það sem ég þurfti að gera áður en ég fór heim. Labbaði um með Dóu minni og sá enn fleiri skemmtilega staði og tók enn fleiri myndir.
Vá hvað það var erfitt að kveðja þessar skvísur. Þetta var allt svo mikil snilld, svo gaman og svo frábært!!
Takk æðislega fyrir mig elskurnar mínar !!
myndir eru á leiðinni á flikkrið - þið fáið svo cd sendann (Dóa, Ragga og Harpa)